Félagið Úlfarsá ehf., sem er í eigu Vignis Steinþórs Halldórssonar, stjórnarmanns í Samtökum iðnaðarins, og lögmannsins Ævars Rafns Björnssonar, festi í lok janúar kaup á lóðinni Kleppsmýrarvegi 6 í Reykjavík á tæplega 585 milljónir króna. Seljandinn er KMV6 ehf. sem er í eigu Ásgeirs Kolbeinssonar.
Lóðin er 2.540 fermetrar að stærð en samkvæmt skipulagi er heimilt að reisa á henni 51 íbúð og má heildarbyggingarmagn vera allt að 7.830 fermetrar.
Í lok síðasta árs greindi Viðskiptablaðið frá því að Orkuveita Reykjavíkur og fjármögnunarfyrirtækið A Faktoring hefðu farið fram á nauðungarsölu á lóðinni vegna 114 milljóna króna kröfu sem var í vanskilum.
Lóðin var upphaflega í eigu Vogabyggðar en í byrjun árs 2018 komst lóðin í eigu Hlíðarsmára Holding - sem var úrskurðað gjaldþrota í fyrra - og þaðan í eigu Fiðluhúss ehf. Síðastnefnda félagið afsalaði eigninni svo til KMV6 í febrúar í fyrra.