Alþýðusamband Íslands mun funda með stjórnendum Íslandsbanka seinna í dag en verkalýðsfélagið ákvað fyrir helgi að hætta í viðskiptum við Íslandsbanka vegna brota bankans við sölumeðferð á hlut ríkisins í sjálfum sér.
Skömmu áður ákvað VR að hætta í viðskiptum við bankann af sömu ástæðum.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, segir í samtali við Viðskiptablaðið, að ASÍ væri ekki kominn með nein tilboð frá öðrum viðskiptabönkum og að framhaldið muni skýrast eftir fundinn á eftir.
„Það er ekkert enn þá farið að gerast,“ segir Finnbjörn.
Spurður um kostnaðinn við það að færa öll viðskipti verkalýðsfélagsins á milli banka, segir Finnbjörn það eigi einnig eftir að skýrast eftir fundinn.
Þyrfti að fara aftur fyrir miðstjórn
Hvort það sé möguleiki á því að ASÍ verði áfram í viðskiptum við Íslandsbanka segir Finnbjörn að það hafi verið ákvörðun miðstjórnar ASÍ að hætta í viðskiptum við bankann.
„Það er þá eitthvað sem við þyrftum að taka fyrir miðstjórn aftur og það kemur í ljós þegar þessum fundi lýkur,“ segir Finnbjörn.
Í yfirlýsingu frá stjórn VR fyrir helgi kallaði verkalýðsfélagið eftir því að stjórn bankans og það starfsfólk sem ábyrgð ber á lögbrotum axli þá ábyrgð. Viðbrögð Íslandsbanka og svör forsvarsmanna hans við kröfum félagsins eru að mati stjórnar VR ófullnægjandi.
Töluverðar breytingar eftir sáttina við FME
Eftir sátt Íslandsbanka við Fjármálaeftirlit seðalbankans lét Birna Einarsdóttir bankastjóri af störfum og tók Jón Guðni Ómarsson fjármálastjóri bankans við sem bankastjóri.
Á hluthafafundi í lok júlí var ný stjórn kjörin og tók Linda Jónsdóttir við sem nýr stjórnarformaður bankans.
Á hluthafafundinum lagði Jón Guðni fram víðtæka, umfangsmikla og ítarlega aðgerðaráætlun sem hrint verður í framkvæmd í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman og ætlað er að endurhugsa ýmsa ferla og starfsreglur bankans í því skyni að styrkja áhættumenningu.
Þá lét Atli Rafn Björnsson af störfum í júlí en hann stýrði fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka frá 2019.
Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka, ákvað einnig stíga til hliðar í byrjun júlí.