Alþýðusamband Íslands, ASÍ, hefur á heimasíðu sinni staðfest ákvörðun um að hætta viðskiptum við Íslandsbanka. Forseti ASÍ segir að „ólöglegt fyrirkomulag sölu á hlutum í Íslandsbanka hafi verið ásetningur en ekki „mistök““.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag fundaði Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, með Jóni Guðna Ómarssyni, bankastjóra Íslandsbanka, í dag. Ljóst er að ASÍ mun halda sínu striki með að slíta viðskiptum við bankann eftir fundinn.
Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Finnbjörn ASÍ ekki vera komið með tilboð frá öðrum viðskiptabönkum og að það lægi ekki fyrir hver kostnaður við að flytja öll viðskipti sambandsins verði.
Í færslu á vefsíðu ASÍ í dag segir Finnbjörn að afstaða miðstjórnar hafi verið skýr á fundi í síðustu viku. ASÍ telur að brot Íslandsbanka við sölu á 22,5% hlut í bankanum í mars 2022 hafi verið alvarleg og lítur á þau sem trúnaðarbrest.
„Með þessu móti lætur Alþýðusambandið í ljós þá eindregnu afstöðu að ólöglegt fyrirkomulag sölu á hlutum í Íslandsbanka hafi verið ásetningur en ekki „mistök“. Nú hefur þessari afstöðu verið komið á framfæri við fólkið í landinu, stjórnmálamenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja,” segir Finnbjörn.
Í sátt Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands við Íslandsbanka talar eftirlitið hvergi um ásetning starfsmanna bankans. FME sagði athugun á söluferlinu þó hafa leitt í ljós víðtæka annmarka og alvarleg brot hjá Íslandsbanka, m.a. hvað hljóðupptökur og flokkun fjárfesta varðar. Auk þess hafi bankinn ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að greina og takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna hans í útboðinu.
Í kjölfar sáttarinnar, þar sem bankinn samþykkti að greiða 1,2 milljarða króna sekt, lét Birna Einarsdóttir bankastjóri, Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta, og Atli Rafn Björnsson, yfirmaður fyrirtækjaráðgjafar, öll af störfum. Jafnframt sóttust formaður og varaformaður stjórnar ekki eftir endurkjöri á hluthafafundi bankans í lok júlí.
Auk þess hefur bankinn ákveðið að hrinda í framkvæmd umfangsmikilli aðgerðaáæltun í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman sem ætlað er að endurhugsa ýmsa ferla og starfsreglur bankans í því skyni að styrkja áhættumenningu.
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, 2. varaforseti ASÍ, sagði í viðtali í Morgunblaðinu sem kom út í morgun að hverjar sem aðgerðir Íslandsbanka til að bæta fyrir brot sín kynnu að verða að þá hefðu þær ekki haft áhrif á ákvörðun ASÍ.