Alþýðusamband Íslands hefur ákveðið að stefna Samtökum atvinnulífsins fyrir Félagsdómi til þess að fá boðað verkbann gegn félagsfólki Eflingar ógilt, að því er segir í tilkynningu á vef Eflingar. Málið verður þingfest á mánudaginn.

„ASÍ telur að ákvörðun um verkbann sé ógild, m.a. sökum þess að stjórn SA sé óheimilt að taka ákvörðun um verkbann og vegna þess að ójafnt atkvæðavægi félagsmanna SA í kosningunni um verkbannið eigi sér ekki lagastoð,“ segir Efling.

„Þá er verkbannsboðun talin ólögleg að mati ASÍ vegna þess að allir félagsmenn SA voru á kjörskrá burtséð frá því hvort þeir starfi á félagssvæði Eflingar eða ekki. Að lokum eru tilteknir formgallar á verkbannsboðun SA taldir gera hana ólöglega.“

Aðildarfyrirtæki SA samþykktu verkbann á félagsmenn Eflingar í atkvæðagreiðslu sem lauk á miðvikudaginn. Um 94,7% þeirra sem tóku þátt greiddu atkvæði með verkbanni.

Verkbannið tekur að óbreyttu gildi í næstu viku, fimmtudaginn 2. mars kl. 12:00, og er ótímabundið þar til samist hefur. Fresti Efling verkföllum munu SA að sama skapi fresta verkbannsaðgerðum sínum.