Alþýðusamband Ísland (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) vara stranglega við tillögum Flokks fólksins um að iðgjöld í lífeyrissjóði verði skattlögð við inngreiðslu í lífeyrissjóði í stað þess að lífeyrir komi til skattlagningar við útgreiðslu. Þetta kemur fram í sameiginlegri ályktun samtakanna.
ASÍ og SA segja að miðað við óbreytt skattkerfi muni lífeyrisgreiðslur eftir skatt verða lægri hjá allflestum lífeyristökum ef iðgjöld verða skattlögð við inngreiðslur.
„Það er sökum þess að í þrepaskipti skattkerfi með persónuafslætti eru skatthlutföll við útgreiðslu lægri en skatthlutföll við inngreiðslu. Þetta mun þýða að framtíðarútgjöld í almannatryggingakerfinu, sem fjármögnuð eru með skatttekjum á hverjum tíma, verða hærri, sem enn mun þyngja skattbyrði komandi kynslóða eða rýra kjör lífeyristaka framtíðarinnar,“ segir í ályktuninni.
„Með skattlagningu lífeyrisgreiðslna væri skref stigið til baka frá kerfi sjóðssöfnunar í átt að gegnumstreymiskerfi.“
SA og ASÍ telja raunar að til lengri tíma litið muni tillagan hafa hvorutveggja í för með sér; lægri lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga og lægri skatttekjur ríkissjóðs í framtíðinni.
Veruleg hætta á tvísköttun og býr til freistnivanda
Þjóðhagslegu áhrif tillögunnar séu þau að minna fé er sparað og þjóðin sem heild myndi ekki þær eignir sem annars yrðu til. Minni sparnaður dragi úr uppsöfnuðum fjármagnstekjum og eignamyndun verði minni. Skattstofnar rýrna og minna fé verði til fjárfestinga. Meira þyrfi að treysta á almannatryggingar.
Þá beri að hafa huga að núverandi kerfi miðar við skattlagningu lífeyrisgreiðslna en ekki iðgjalda. Það muni taka langan tíma að breyta því kerfi, með tilheyrandi kostnaði.
Þá þurfi að gæta að frjálsri för vinnuafls innan EES og reglum ESB um flutning lífeyrisréttinda á milli landa. Í flestum ríkjum EES séu lífeyrisgreiðslur skattlagðar hjá lífeyrisþegum við útgreiðslu. Í breytingunni fælist því veruleg hætta á tvísköttun.
Jafnframt skapi tillagan verulegan freistnivanda í framtíðinni. Hætt sé við því að stjórnmálamenn freistist til þess að skattleggja einnig lífeyrisgreiðslur þegar skatttekjur taka að dragast saman sökum breyttrar aldursamsetningar þjóðarinnar.
„Lífeyrisþegar geta ekki treyst því að stjórnmálamenn framtíðarinnar skattleggi ekki útgreiðslur.“
Flokkur fólksins ætlar að „taka 90 milljarða af lífeyrissjóðum“ á ári hverju
Flokkur fólksins talaði fyrir því í aðdraganda kosninga um að afnema undanþágu lífeyrissjóðanna frá staðgreiðslu skatta. „Við ætlum að taka 90 milljarða af lífeyrissjóðunum á hverju einasta, einasta, einasta ári,“ sagði Inga Sæland, formaður flokksins, í Spursmálum í byrjun nóvember.
Ragnar Þór Ingólfsson, sem lét af störfum sem formaður VR í vikunni þar sem hann hlaut kjör á þing fyrir Flokk fólksins, tók undir þessa hugmynd í aðsendri grein á Vísi í aðdraganda kosninga. Þar sagði hann meðal annars:
„Góða fólkið vil ég spyrja hvort það treysti lífeyrissjóðunum betur til að geyma lífeyrinn í flugfélagi, kísilveri eða nýjasta trendinu, grænu verðbréfabyltingunni? Eða hvort það gæti kannski verið betra að fénu verði fjárfest í innviðum, húsnæði, hjúkrunarheimilum eða með því að stórbæta lífskjör og þjónustu allra sem hér búa með því að leggja hluta af iðgjöldum í skattkerfið og draga verulega úr skerðingum í almannatryggingakerfinu?“
Lönd með gegnumstreymiskerfi þurfi að hækka eftirlaunaaldur eða skerða réttindi
ASÍ og SA segjast ítrekað hafa lagst gegn sambærilegum tillögum sem hafi áður verið settar fram, til að mynda í kjölfar efnahagshruns árið 2008.
„Lífeyriskerfið sem við búum við hér á landi byggist á fullfjármagnaðri sjóðsöfnun. Sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóða og með því vinna þeir sér réttindi, meðal annars til ellilífeyris, frá upphafi lífeyristökualdurs til æviloka. Lífeyrissjóðir ábyrgjast skuldbindingar sínar með eignum sínum en þær myndast með iðgjöldum og ávöxtun þeirra. Á móti eignum lífeyrissjóða standa því skuldbindingar um elli-, örorku-, maka- og barnalífeyri til landsmanna,“ segir í ályktuninni.
„Rétt er að árétta að áunnin lífeyrisréttindi njóta eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.“
Bent er á að lækkandi fæðingartíðni og hækkandi meðalaldur í Evrópu hafi leitt til þess að mörg lönd álfunnar geta ekki að óbreyttu fjármagnað lífeyrisskuldbindingar samhliða hlutfallslegri fækkun fólks á vinnumarkaði.
Mörg lönd séu því enn með gegnumstreymiskerfi, sem felur í sér að ekki eru greidd sérstök iðgjöld heldur eru lífeyrisgreiðslur fjármagnaðar með sköttum. Þeir sem greiða skatta standa því raunar undir lífeyrisgreiðslum hvers tíma fyrir sig og þurfa skatttekjur framtíðar því að standa undir lífeyrisskuldbindingum.
„Fyrirséð er að fjölgun eftirlaunaþega muni leiða til aukinna opinberra útgjalda. Lönd með gegnumstreymislífeyriskerfi þurfa því að hækka eftirlaunaaldur og/eða lækka eftirlaunagreiðslur.“
Núverandi fyrirkomulag engin tilviljun
ASÍ og SA segja núverandi fyrirkomulag enga tilviljun heldur niðurstöðu mikillar yfirlegu og ígrundaðra umræðna árum saman og ætlað að standast til áratuga „enda er uppbygging lífeyrissjóða lang tímaverkefni og sjóndeildarhringurinn þarf að ná út yfir þarfir einnar kynslóðar“.
„Kerfið var byggt upp af framsýni og hefur staðist tímans tönn. Það sést best á því að lífeyrissjóðirnir standa undir meginhluta lífeyristekna almennings sem stöðugt fara vaxandi. Alþjóðlega er litið til okkar þegar kemur að árangri við að tryggja afkomu lífeyristaka og ekki síst hvað varðar sjálfbærni lífeyriskerfisins til framtíðar.“