Um árabil hefur verið stöðnun og markaðsbrestur á fasteignamarkaði víða á landsbyggðinni. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hrundi í kjölfar efnahagshrunsins og tók framboð ekki við sér fyrr en í kringum árið 2016. Nú horfir á móti til betri vegar.

Sé fasteignaverð skoðað á landinu má sjá að á Austurlandi, Norðvesturlandi og Vestfjörðum hefur markaðsverð verið talsvert undir meðaltali landsins. Umtalsverð hækkun hefur hins vegar orðið síðastliðin fimm ár. Skyndilega er staðan sú að eignir vantar en unnið er að því að bæta úr því og sums staðar verið að reisa fyrstu nýbyggingarnar í áratugi. Dæmi um slíkt eru til að mynda Blönduós og Vopnafjörður.

„Það hefur reynst okkur mikil áskorun að finna húsnæði fyrir alla sem hingað vilja koma og það sem hefur sárlega vantað er hentugt leiguhúsnæði,“ segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Vesturbyggð varð til 1994 þegar fjórir hreppir á sunnanverðum Vestfjörðum, Barðastrandar-, Rauðasands-, Bíldudals- og Patrekshreppur, runnu saman í eina sæng. Talsverð fólksfjölgun hefur verið í sveitarfélaginu undanfarinn áratug en í árslok 2010 bjuggu þar 890 einstaklingar en eru nú, samkvæmt tölum Hagstofunnar, rétt tæplega 1.100. Það er aukning um tæplega fjórðung á rétt rúmum áratug. Samtímis hefur lítið af húsnæði bæst við en tímabilið 1991-2020 risu þar þrjú sérbýli og alls sextán íbúðir í fjölbýli, sérbýlin árið 1993 og hin 2018.

Skorturinn flöskuháls

„Þörfin er mikil og staðan er einfaldlega sú að skortur á húsnæði er orðinn að flöskuhálsi hvað varðar fólksflutninga hingað,“ segir Rebekka. Vonir standa þó til að úr því rætist á næstunni. „Það er gert ráð fyrir tveimur parhúsum á Patreksfirði á næstu árum og á Bíldudal á að rísa parhús og tíu íbúða fjölbýlishús en hið síðastnefnda er á vegum óhagnaðardrifins leigufélags.“

Stutt er síðan algjör markaðsbrestur var á fasteignamarkaði í sveitarfélaginu en nú er annað hljóð komið í kroppinn. „Það er starfandi fasteignasali í bænum og það hefur verið brjálað að gera hjá henni. Hægt og rólega mjakast verðið upp og vonandi náum við áður en langt um líður á þann stað að kostnaðarverð við byggingu verði eilítið undir markaðsverði,“ segir Rebekka.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .