Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í gær úrskurð yfirskattanefndar um að eldri áskriftarréttindi Kviku banka, sem fólust í útgáfu B-hluta til lykilstarfsmanna, séu skattskyldar tekjur og eru greiðslur á þeim grunni því ekki skattlagðar sem fjármagnstekjur. Engu máli skipti þótt starfsmenn hefðu greitt gangvirði fyrir réttindin.
Téðir kaupréttir, sem undir voru í málinu, voru aðeins veittir fámennum hópi lykilstjórnenda en við verðmat á réttindunum var byggt á svokallaðri Black-Scholes-aðferð.
Í fyrri réttarframkvæmd hefur verið miðað við að áskriftarréttindi, sem veitt eru starfsmönnum í tengslum við starf þeirra og undir markaðsvirði bréfanna, skuli skattleggja sem fjármagnstekjur heldur sem launatekjur starfsmanna.
Málið er frábrugðið þeim fyrri í ljósi þess að greitt var fyrir réttindin.
Byggðu stjórnendur bankans á því að réttindin hefðu ekki verið veitt í tengslum við störf þeirra og þar með ekki starfstengd hlunnindi. Á þetta féllst Skatturinn ekki - hið sama gilti um yfirskattanefnd og Héraðsdóm Reykjavíkur.
Fimm fyrrum stjórnendur bankans og einn framkvæmdastjóri fóru í mál við íslenska ríkið en skattayfirvöld byrjuðu að taka til skoðunar skattskil vegna áskriftarréttindakerfis Kviku banka í mars 2019.
Þar áður hafði Fjármálaeftirlitið gert bankanum að greiða sekt vegna brota á reglum sem gilda um kaupauka. Lögum samkvæmt mega þeir ekki vera hærri en 25% af árslaunum.
Réttindin „frábrugðin“ kaupréttum
Árið 2014 gerði Kvika banki samninga um áskriftarréttindi við sex stjórnendur bankans, sem stjórn bankans gaf út á grundvelli heimilda hluthafafundar.
Í dómi héraðsdóms segir að áskriftarréttindin til starfsmanna hafi verið frábrugðin kaupréttum að því leyti að með áskriftarréttindum væru rétthafar að leggja félaginu til nýtt hlutafé og auka þannig eigið fé félagsins.
Starfsmenn hefðu auk þess átt frumkvæði að viðskiptunum, keypt réttindin á gangvirði byggt á verðmati utanaðkomandi sérfræðinga og tekið á sig þá fjárhagslegu áhættu sem því fylgir, ólíkt því þegar starfsmenn hafa fengið starfstengda kauprétti. Í engum tilvikum hafi bankinn lánað fyrir kaupunum.
Umrædd áskriftarréttindi hafi verið ótengd störfum hjá bankanum að öðru leyti en því að þau áttu að stuðla að því að stjórnendur myndu horfa til langtímahagsmuna hluthafa frekar en starfstengdra hagsmuna, t.d. ef upp kæmu tækifæri til samruna. Áskriftarréttindin sem gefin voru voru framseljanleg.
Ríkisskattstjóri komst að þeirri niðurstöðu árið 2021 að umrædd áskriftarréttindi sem bankinn hafði gefið út á árunum 2014 og 2016 væru venjulegir kaupréttarsamningar starfsmanna við vinnuveitendur sem bæri að skattleggja sem launagreiðslur.
Með því að fara með hagnaðinn sem söluhagnað af hlutabréfum eða sem hagnað af uppgjöri afleiðusamninga, þar sem félögum er í báðum tilvikum veittur fullur frádráttur á móti söluhagnaðinum, hefði ekki verið rétt staðið að skattgreiðslum.
Kvika banki hafnaði því að umrædd áskriftarréttindi væru venjulegir kaupréttarsamningar starfsmanna við vinnuveitanda, enda skorti þau a.m.k. tvo eiginleika sem einkenna slíka samninga, annars vegar skilyrði um áframhaldandi störf og hins vegar að þau voru seld á gangvirði og því með fullri áhættu rétthafa.
Í úrskurði yfirskattanefndar var m.a. vísað til þess að umrædd réttindi hefðu eingöngu verið seld fámennum hópi æðstu stjórnenda og ekki staðið öðrum til boða. Markmiðið hefði verið að samþætta hagsmuni þeirra og bankans til lengri og skemmri tíma, eins og jafnan eigi við um veitingu starfstengds kaupréttar.
„Þrátt fyrir að sala áskriftarréttindanna hefði af hálfu Kviku banka hf. ekki verið bundin við áframhaldandi störf rétthafa fyrir bankann lægi allt að einu fyrir að hvers kyns ráðstöfun réttindanna frá árinu 2016 hafi verið óheimil nema með leyfi stjórnar bankans. Þá yrði að telja að samræmis- og jafnræðisrök stæðu til þess að skattlagning gæti ekki ráðist af því einu saman hvort eða þá að hvaða marki greiðsla fyrir kaupréttinn yrði talin endurspegla gangverð hans á þeim tíma þegar veiting kaupréttar átti sér stað. Áskriftarréttindin hefðu mun ríkara einkenni starfstengds og afkastahvetjandi kaupauka heldur en almennra viðskipta með hlutabréf í bankanum,“ segir í dómi Héraðsdóms.
Starfsmenn Skattsins ekki vanhæfir
Undir rekstri málanna var lögð fram bókun í þinghaldi 29. febrúar 2024 um nýja málsástæðu sem byggði á því að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi verið vanhæfir til undirbúnings og töku þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem fól í sér úrskurð ríkisskattstjóra um endurálagningu skatta á stefnanda, þar sem launafyrirkomulag hjá embætti ríkisskattstjóra hefði verið með þeim hætti að ákvörðunin gat haft áhrif á hvort þeir hlytu viðbótarlaunagreiðslur vegna starfa sinna.
Til stóð að kveða Snorra Olsen, ríkisskattstjóra og tvo starfsmenn Skattsins fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu en Landsréttur sneri við ákvörðun Héraðsdóms með vísan í lög um meðferð einkamála um að embættis- og sýslunarmönnum sé óskylt að koma fyrir dóm til að vitna um atvik sem gerst hafi í embætti þeirra eða sýslunni og megi leiða nægilega í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali.
Starfsmennirnir tveir sem um ræðir í málinu eru þeir sem kváðu upp úrskurð í máli Kviku en bankinn hefur skorað á Skattinn að upplýsa hvort settar hefðu verið sérsta reglur um viðbótarlaun hjá Skattinum og hvernig þeim hefði verið beitt á árunum 2021 til 2022.
Yfirskattanefnd hafnaði því í nóvember 2022 að fella úrskurðinn úr gildi en Kvika krefst þess fyrir dómi að úrskurður yfirskattanefndar verði felldur úr gildi og að Skatturinn greiði bankanum tiltekna fjárhæð.
Landsréttur sneri við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem komst að því í lok maí að Snorri og starfsmennirnir þyrftu að bera vitni í málinu.
Samkvæmt Landsrétti lét Skatturinn Kviku frá upplýsingar og gögn um ýmis atriði sem tengdust áðurnefndum viðbótarlaunum en Skatturinn mótmælti fyrirhuguðum vitnaleiðslum.
Í máli stjórnenda bankans gegn íslenska ríkinu kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að starfsmenn Skattsins hefðu ekki verið vanhæfir til að taka ákvörðun í málinu þar sem viðbótarlaunagreiðslur gátu ekki ráðist af mikilli endurálagningu eða beitingu álags.
„Engin tengsl voru því á milli niðurstöðu þeirra mála sem hér um ræðir og launagreiðslna til starfsmanna. Verður ekki fallist á að réttmætur vafi sé um hæfi þeirra,” segir í dómi héraðsdóms.
Síðara kaupréttakerfið enn til umfjöllunar
Síðara kaupréttakerfi Kviku sem var sett á laggir 2017 hefur verið talsvert til umfjöllunar en Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, fékk kauprétt samkvæmt því kerfi þegar hún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku.
Samkvæmt því kerfi voru áskriftarréttindi fyrir að 700 milljón hlutir að nafnvirði seldir til starfsfólks en það greiddi gangvirði fyrir réttindin samkvæmt fyrrgreindri Black-Scholes formúlu. Þá er sá munur einnig á því kerfi, og því sem var undir í þessari atrennu, að nýrri réttindin voru framseljanleg án aðkomu stjórnar og stóðu stærri hópi starfsmanna til boða.
Með því var leitast við að koma nefndum réttindum í fjármagnstekjuþrep í stað hefðbundins launaþreps. Mál tengt seinna kaupréttarkerfinu er til umfjöllunar héraðsdóms um þessar mundir.