Héraðs­dómur Reykja­víkur stað­festi í gær úr­skurð yfir­skatta­nefndar um að eldri áskriftarréttindi Kviku banka, sem fólust í út­gáfu B-hluta til lykil­starfs­manna, séu skatt­skyldar tekjur og eru greiðslur á þeim grunni því ekki skatt­lagðar sem fjár­magns­tekjur. Engu máli skipti þótt starfs­menn hefðu greitt gang­virði fyrir réttindin.

Téðir kaupréttir, sem undir voru í málinu, voru aðeins veittir fá­mennum hópi lykil­stjórn­enda en við verðmat á réttindunum var byggt á svo­kallaðri Black-Scho­les-að­ferð.

Í fyrri réttar­fram­kvæmd hefur verið miðað við að áskriftarréttindi, sem veitt eru starfsmönnum í tengslum við starf þeirra og undir markaðsvirði bréfanna, skuli skatt­leggja sem fjár­magns­tekjur heldur sem launa­tekjur starfs­manna.

Málið er frábrugðið þeim fyrri í ljósi þess að greitt var fyrir réttindin.

Byggðu stjórn­endur bankans á því að réttindin hefðu ekki verið veitt í tengslum við störf þeirra og þar með ekki starfs­tengd hlunnindi. Á þetta féllst Skatturinn ekki - hið sama gilti um yfir­skatta­nefnd og Héraðs­dóm Reykja­víkur.

Fimm fyrrum stjórn­endur bankans og einn fram­kvæmda­stjóri fóru í mál við ís­lenska ríkið en skatta­yfir­völd byrjuðu að taka til skoðunar skatt­skil vegna áskriftarréttinda­kerfis Kviku banka í mars 2019.

Þar áður hafði Fjár­mála­eftir­litið gert bankanum að greiða sekt vegna brota á reglum sem gilda um kaup­auka. Lögum sam­kvæmt mega þeir ekki vera hærri en 25% af árs­launum.

Réttindin „frábrugðin“ kaupréttum

Árið 2014 gerði Kvika banki samninga um áskriftarréttindi við sex stjórn­endur bankans, sem stjórn bankans gaf út á grund­velli heimilda hlut­hafa­fundar.

Í dómi héraðs­dóms segir að áskriftarréttindin til starfs­manna hafi verið frábrugðin kaupréttum að því leyti að með áskriftarréttindum væru rétt­hafar að leggja félaginu til nýtt hluta­fé og auka þannig eigið fé félagsins.

Starfs­menn hefðu auk þess átt frum­kvæði að við­skiptunum, keypt réttindin á gang­virði byggt á verðmati utan­aðkomandi sér­fræðinga og tekið á sig þá fjár­hags­legu áhættu sem því fylgir, ólíkt því þegar starfs­menn hafa fengið starfs­tengda kauprétti. Í engum til­vikum hafi bankinn lánað fyrir kaupunum.

Um­rædd áskriftarréttindi hafi verið ótengd störfum hjá bankanum að öðru leyti en því að þau áttu að stuðla að því að stjórn­endur myndu horfa til langtíma­hags­muna hlut­hafa frekar en starfs­tengdra hags­muna, t.d. ef upp kæmu tækifæri til sam­runa. Áskriftarréttindin sem gefin voru voru fram­seljan­leg.

Ríkis­skatt­stjóri komst að þeirri niður­stöðu árið 2021 að um­rædd áskriftarréttindi sem bankinn hafði gefið út á árunum 2014 og 2016 væru venju­legir kaupréttar­samningar starfs­manna við vinnu­veit­endur sem bæri að skatt­leggja sem launa­greiðslur.

Með því að fara með hagnaðinn sem sölu­hagnað af hluta­bréfum eða sem hagnað af upp­gjöri af­leiðu­samninga, þar sem félögum er í báðum til­vikum veittur fullur frádráttur á móti sölu­hagnaðinum, hefði ekki verið rétt staðið að skatt­greiðslum.

Kvika banki hafnaði því að um­rædd áskriftarréttindi væru venju­legir kaupréttar­samningar starfs­manna við vinnu­veitanda, enda skorti þau a.m.k. tvo eigin­leika sem ein­kenna slíka samninga, annars vegar skil­yrði um áfram­haldandi störf og hins vegar að þau voru seld á gang­virði og því með fullri áhættu rétt­hafa.

Í úr­skurði yfir­skatta­nefndar var m.a. vísað til þess að um­rædd réttindi hefðu ein­göngu verið seld fá­mennum hópi æðstu stjórn­enda og ekki staðið öðrum til boða. Mark­miðið hefði verið að samþætta hags­muni þeirra og bankans til lengri og skemmri tíma, eins og jafnan eigi við um veitingu starfs­tengds kaupréttar.

„Þrátt fyrir að sala áskriftarréttindanna hefði af hálfu Kviku banka hf. ekki verið bundin við áfram­haldandi störf rétt­hafa fyrir bankann lægi allt að einu fyrir að hvers kyns ráðstöfun réttindanna frá árinu 2016 hafi verið óheimil nema með leyfi stjórnar bankans. Þá yrði að telja að samræmis- og jafn­ræðis­rök stæðu til þess að skatt­lagning gæti ekki ráðist af því einu saman hvort eða þá að hvaða marki greiðsla fyrir kaupréttinn yrði talin endur­spegla gang­verð hans á þeim tíma þegar veiting kaupréttar átti sér stað. Áskriftarréttindin hefðu mun ríkara ein­kenni starfs­tengds og af­kasta­hvetjandi kaup­auka heldur en al­mennra við­skipta með hluta­bréf í bankanum,“ segir í dómi Héraðs­dóms.

Starfsmenn Skattsins ekki vanhæfir

Undir rekstri málanna var lögð fram bókun í þing­haldi 29. febrúar 2024 um nýja málsástæðu sem byggði á því að starfs­menn ríkis­skatt­stjóra hafi verið van­hæfir til undir­búnings og töku þeirrar stjórn­valdsákvörðunar sem fól í sér úr­skurð ríkis­skatt­stjóra um endur­álagningu skatta á stefnanda, þar sem launa­fyrir­komu­lag hjá em­bætti ríkis­skatt­stjóra hefði verið með þeim hætti að ákvörðunin gat haft áhrif á hvort þeir hlytu viðbótar­launa­greiðslur vegna starfa sinna.

Til stóð að kveða Snorra Ol­sen, ríkis­skatt­stjóra og tvo starfs­menn Skattsins fyrir dóm til að gefa vitna­skýrslu en Lands­réttur sneri við ákvörðun Héraðs­dóms með vísan í lög um með­ferð einkamála um að em­bættis- og sýslunar­mönnum sé óskylt að koma fyrir dóm til að vitna um at­vik sem gerst hafi í em­bætti þeirra eða sýslunni og megi leiða nægi­lega í ljós með vott­orði úr em­bættis­bók eða öðru opin­beru skjali.

Starfs­mennirnir tveir sem um ræðir í málinu eru þeir sem kváðu upp úr­skurð í máli Kviku en bankinn hefur skorað á Skattinn að upp­lýsa hvort settar hefðu verið sér­sta reglur um viðbótar­laun hjá Skattinum og hvernig þeim hefði verið beitt á árunum 2021 til 2022.

Yfir­skatta­nefnd hafnaði því í nóvember 2022 að fella úr­skurðinn úr gildi en Kvika krefst þess fyrir dómi að úr­skurður yfir­skatta­nefndar verði felldur úr gildi og að Skatturinn greiði bankanum til­tekna fjár­hæð.

Lands­réttur sneri við úr­skurði Héraðs­dóms Reykja­víkur sem komst að því í lok maí að Snorri og starfs­mennirnir þyrftu að bera vitni í málinu.

Sam­kvæmt Lands­rétti lét Skatturinn Kviku frá upp­lýsingar og gögn um ýmis at­riði sem tengdust áður­nefndum viðbótar­launum en Skatturinn mót­mælti fyrir­huguðum vitna­leiðslum.

Í máli stjórn­enda bankans gegn ís­lenska ríkinu kemst héraðs­dómur að þeirri niður­stöðu að starfs­menn Skattsins hefðu ekki verið van­hæfir til að taka ákvörðun í málinu þar sem viðbótar­launa­greiðslur gátu ekki ráðist af mikilli endur­álagningu eða beitingu álags.

„Engin tengsl voru því á milli niður­stöðu þeirra mála sem hér um ræðir og launa­greiðslna til starfs­manna. Verður ekki fallist á að rétt­mætur vafi sé um hæfi þeirra,” segir í dómi héraðs­dóms.

Síðara kaupréttakerfið enn til umfjöllunar

Síðara kauprétta­kerfi Kviku sem var sett á lag­gir 2017 hefur verið tals­vert til um­fjöllunar en Kristrún Frosta­dóttir, for­maður Sam­fylkingarinnar, fékk kauprétt sam­kvæmt því kerfi þegar hún starfaði sem aðal­hag­fræðingur Kviku.

Sam­kvæmt því kerfi voru áskriftarréttindi fyrir að 700 milljón hlutir að nafn­virði seldir til starfs­fólks en það greiddi gang­virði fyrir réttindin sam­kvæmt fyrr­greindri Black-Scho­les for­múlu. Þá er sá munur einnig á því kerfi, og því sem var undir í þessari at­rennu, að nýrri réttindin voru fram­seljan­leg án aðkomu stjórnar og stóðu stærri hópi starfs­manna til boða.

Með því var leitast við að koma nefndum réttindum í fjár­magns­tekjuþrep í stað hefðbundins launaþreps. Mál tengt seinna kaupréttar­kerfinu er til um­fjöllunar héraðs­dóms um þessar mundir.