Fjármálaráðuneytið hefur tilkynnt um að eftirspurn í pantanabók í útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé tryggð. Sameiginlegir umsjónaraðilar hafi móttekið pantanir umfram grunnmagn, eða sem nær til 20% hlut af útstandandi hlutafé Íslandsbanka.

„Líkt og kemur fram í útboðslýsingu hefur fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu. Frekari upplýsingar um framgang útboðsins munu verða birtar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Almenna hlutafjárútboðið hófst í morgun og gert er ráð fyrir að því ljúki á fimmtudaginn klukkan 17:00.

Grunnmagn útboðsins nær til allt að 376.094.154 hluta í Íslandsbanka hf, eða 20% af heildarhlutafé bankans. Miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A má ætla að söluandvirði ríkisins verður a.m.k. 40 milljarðar króna ef full áskrift fæst.

Gera má því ráð fyrir að tilboð að andvirði meira en 40 milljarðar króna hafi verið lögð inn.

Fjármálaráðherra hefur heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu. Samanlagt geta grunnmagn útboðsins og möguleg magnaukning numið öllum eftirstandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka eða 45,2% af almennum hlutum bankans.