Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur boðað til fundar á morgun, sunnudaginn 26. janúar kl. 13:00, í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll (NASA).
Þetta kemur fram í auglýsingu frá Áslaugu Örnu í Morgunblaðinu í dag.
Í auglýsingunni er ekki greint frá tilefni fundarins en Áslaug hefur verið talin líklegust samkvæmt veðbönkum til að taka við keflinu af Bjarna Benediktssyni og verða næsti formaður flokksins.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gærkvöldi vilja flestir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sjá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem nýjan formann samkvæmt könnun Gallups.
Um 39% svarenda sögðust vilja sjá Áslaugu Örnu sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Þórdís Kolbrún og Guðlaugur Þór eru í öðru og þriðja sæti könnunarinnar, með sitthvor 20 prósentin. Þar á eftir kemur Guðrún Hafsteinsdóttir með 13% og Jón Gunnarsson með 5%.
Landsfundur flokksins fer fram í Laugardalshöll dagana 28. febrúar – 2. mars nk.