Flestir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins vilja sjá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem nýjan formann Sjálfstæðisflokksins samkvæmt könnun Gallup sem gerð var fyrir Þjóðmál dagana 9. til 21. janúar. Rætt er um könnunina í nýjasta þætti Þjóðmála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem tilkynnti í gær að hún muni ekki gefa kost á sér, og Guðlaugur Þór Þórðarson fylgja þar á eftir.
Kosið verður um nýjan formann Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fer fram dagana 28. febrúar - 2. mars. Enginn af leiðtogum flokksins hefur enn formlega boðið sig fram.
Um 39% svarenda sögðust vilja sjá Áslaugu Örnu sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Þórdís Kolbrún og Guðlaugur Þór eru í öðru og þriðja sæti könnunarinnar, með sitthvor 20 prósentin. Þar á eftir kemur Guðrún Hafsteinsdóttir með 13% og Jón Gunnarsson með 5%.
Spurt var: Hvaða einstakling myndir þú vilja sjá sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins?
Þátttakendur höfðu val um alla þá fimm einstaklinga sem gegnt höfðu embætti ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn á síðasta kjörtímabili nema Bjarna Benediktsson sem tilkynnti í byrjun mánaðar að hann muni ekki taka sæti á þingi né heldur gefa kost á sér í næsta formannskjöri Sjálfstæðisflokksins.
Viðskiptablaðið greindi frá niðurstöðum samskonar könnunar sem framkvæmd var 27. september til 7. október síðastliðinn, skömmu áður en Bjarni Benediktsson tilkynnti um stjórnarslit. Þar var lögð fyrir sama spurning og gefnir upp sömu valmöguleikar í könnuninni núna í janúar.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar síðasta haust studdu þá flestir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins Þórdís Kolbrúnu, eða um 32% svarenda.
Til samanburðar sögðust 24% svarenda styðja Áslaugu Örnu, 18% styðja Guðrúnu Hafsteinsdóttur, 11% Guðlaug Þór og 9% Jón Gunnarsson.
Af könnunum að dæma virðist sem fylgi Áslaugar Örnu hefur aukist talsvert síðan í haust, en aftur á móti dalaði stuðningur við Þórdísi Kolbrúnu.
Guðlaugur Þór bætir talsvert við sig og fer úr 11% í 20%.
Stuðningur við Guðrúnu lækkaði hins vegar úr 18% í 13% milli kannana.
Þórdís Kolbrún, sem hefur verið varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2018, tilkynnti í gær að hún hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér til formanns eða annarra embætta innan Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í febrúar.
Fastlega er búist við að Áslaug Arna bjóði sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt er talið líklegt að Guðrún gæti boðið sig fram en nokkur Sjálfstæðisfélög úr kjördæmi hennar hafa hvatt hana til að fara fram.
Könnunin var gerð fyrir Þjóðmál dagana 9. til 21. janúar. Könnunin var netkönnun, úrtakið 2.877, fjöldi svarenda 1.420 og svarhlutfall 49,4%.