Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur sett á laggir tveggja milljarða króna sjóð fyrir verkefni sem styðja við nýsköpun og framfarir á háskólastigi ásamt því að hvetja háskólana til aukins samstarfs og jafnvel sameiningar. Allt að einum milljarði verður úthlutað í ár og sambærilegri upphæð á næsta ári.
„Ísland er fámennt land og því hefur verið haldið fram að við séum of fá til að reka sjö háskóla. Ég hef hvatt skólana til að skoða aukið samstarf sín á milli og jafnvel sameiningar sem mér finnst mikilvægt að þeir eigi frumvæði að,“ segir Áslaug Arna í tilkynningu.
„Samstarf háskóla, þvert á landshluta og rekstrarform hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Ég vil sjá háskólana ganga enn lengra enda tel ég nánast útilokað að háskólanemar hér á landi fái menntun á heimsmælikvarða nema skólarnir taki höndum saman.“
Með hinum svokallaða Samstarfssjóði er vonast til að háskólarnir sýni frumkvæði í greiningu á samstarfsmöguleikum sín á milli. Þá styðji sjóðurinn við áherslur ríkisstjórnarinnar um einföldun stofnanakerfisins með það að markmiði að það verði burðugra, sveigjanlegra og hagkvæmara.
Samstarfssjóðurinn er þegar fjármagnaður undir safnlið innan málefnasviðs 21 – Háskólastig í fjárlögum. „Með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfssjóðinn verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður og efnt til samkeppni um umbótaverkefni í meira mæli en áður,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.