Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur ákveðið að taka sér níu mánaða leyfi frá þingstörfum frá og með haustinu en hún mun hefja nám í Columbia háskóla í New York síðsumars. Hún fékk boð um skólavist í vikunni, að því er kemur fram í færslu á Facebook.

Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður, sem var í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður kemur inn á þing í fjarveru Áslaugar.

„Þetta hefur verið draumur lengi. Ég er reyndar manneskja margra drauma. Síðustu 10 ár hef ég gefið allt sem ég á í störfum mínum fyrir Ísland og Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Áslaug.

„Ástríða mín um að hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar er hvergi á undanhaldi. Ég trúi því að með þessu skrefi sé ég ekki að bara láta persónulegan draum rætast heldur líka að stækka sjóndeildarhringinn, bæta við mig þekkingu og reynslu sem mun án efa reynast mér mikilvægt veganesti inn í framtíðina.“

Hvergi nærri hætt í stjórnmálum

Áslaug tók sæti á Alþingi árið 2016. Hún var dómsmálaráðherra á árunum 2019–2021 og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 2021–2024. Áslaug bauð sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í febrúar og fékk þar 49,1% greiddra atkvæða en Guðrún Hafsteinsdóttir hafði betur með 50,1% atkvæða.

„Ég er hvergi nærri hætt í stjórnmálum og stóra verkefnið framundan eru sveitarstjórnarkosningarnar og að ná borginni að nýju. Þar þarf okkar fólk um allt land á okkar einarða stuðningi að halda.“