Hoobla hefur tekið í notkun nýjan verkvang sjálfstætt starfandi sérfræðinga, stjórnenda og ráðgjafa. Það var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sem vígði verkvanginn við hátíðlega athöfn í Hörpu í vikunni.

Verkvangurinn samanstendur af hugbúnaði og persónulegri þjónustu sem umbyltir aðgengi vinnumarkaðar að hæfum sérfræðingum, stjórnendum og ráðgjöfum í nærumhverfi sem taka að sér tímabundin verkefni og hlutastörf.

Harpa Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Hoobla, segir að með verkvanganum skapist notendavænn aðgangur að yfir 400 framúrskarandi sérfræðingum sem hafa farið í gegnum matsferli hjá mannauðssérfræðingi Hoobla.

Hoobla notar meðal annars gervigreind til að para saman hæfa sjálfstætt starfandi sérfræðinga við þarfir vinnustaða fyrir sveigjanlegt vinnuafl. Þegar vinnustaður setur verkefni inn í Hoobla þá parar hugbúnaðurinn saman hæfniþætti sem leitað er eftir og gerir viðeigandi sérfræðingum viðvart um að nú sé verkefni í boði sem gæti passað þeim.

Sérfræðingarnir gera tilboð í gegnum Hoobla og innan tveggja sólarhringa fær vinnustaðurinn tilboð frá hæfum sérfræðingum í sínu nærumhverfi.

„Sjálfstætt starfandi sérfræðingar eru mjög þarfir á íslenskum vinnumarkaði, mjög þarfir til áframhaldandi nýsköpunar og til áframhaldandi vaxtar hugverks á Íslandi. Það að okkar fámenna þjóð geti deilt þekkingarstarfsmönnum hefur aldrei verið mikilvægara en nú þegar vöntun er á slíku fólki,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.