Veðbankarnir Epicbet og Coolbet settu upp stuðla í byrjun vikunnar þar sem hægt er að veðja á hver verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni Benediktsson tilkynnti í byrjun ársins að hann hygðist ekki sækjast eftir áframhaldandi formennsku í flokknum. Landsfundur fer fram í Laugardalshöll dagana 28. febrúar – 2. mars nk.

Hjá báðum veðbönkum eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum ráðherra og ritari flokksins, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður flokksins og fyrrum ráðherra, taldar líklegastar til að taka við keflinu af Bjarna.

Epicbet metur Þórdísi Kolbrúnu líklegasta með stuðulinn 2.85 og þ.a.l. 35% líkur á að hún verði næsti formaður. Þá er Áslaug Arna með stuðulinn 4.0, sem endurspeglar 25% líkur.

Coolbet metur Áslaugu Örnu líklegasta með stuðulinn 3.5 og kemur Þórdís Kolbrún þar skammt á eftir með stuðulinn 4.0.

Báðir veðbankar meta Guðlaug Þór Þórðarson, fyrrum ráðherra og ritara flokksins, þriðja líklegastan til að verða næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Hann er með stuðulinn 4.5 hjá Coolbet en 5.0 hjá Epicbet.

Athygli vekur að Stefán Einar Stefánsson, fjölmiðlamaður, hlaðvarpari og fyrrum verkalýðsforingi, mælist fjórði líklegastur hjá Coolbet og fimmti líklegastur hjá Epicbet.