Veðbankarnir Coolbet og Epicbet eru sammála því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum ráðherra og ritari Sjálfstæðisflokksins, sé líklegust til að taka við keflinu af Bjarna Benediktssyni og verða næsti formaður flokksins.
Veðjað hefur verið fyrir rúmlega fimm milljónir króna á formannskosningarnar, samkvæmt talsmönnum veðbankanna tveggja. 3,2 milljónum króna hjá Coolbet og u.þ.b. 2,1 milljón hjá Epicbet.
Landsfundur flokksins fer fram í Laugardalshöll dagana 28. febrúar – 2. mars nk.
Hjá báðum veðbönkum er Áslaug Arna með stuðulinn 2.50, sem endurspeglar 40% líkur.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður flokksins og fyrrum ráðherra, er þá með stuðulinn 4.00 hjá Coolbet en 4.25 hjá Epicbet.
Báðir veðbankar telja Guðlaug Þór Þórðarson, fyrrum ráðherra og ritara flokksins, þriðja líklegastan til að verða næsta formann Sjálfstæðisflokksins.
Talsmaður Coolbet á Íslandi segir að langmestu hafi verið veðjað á Áslaugu, Þórdísi og Guðlaug Þór Þórðarson. Þá hafi talsvert verið „sett“ á Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóra Heima, og Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs.
„Þó að talsvert miklu hafi verið veðjað á kosningarnar höfum við lítið verið að hreyfa við stuðlunum, enda tiltölulega lítið vitað um mögulega frambjóðendur eins og stendur. Það var langmestu veðjað fyrstu tvo dagana eftir að við opnuðum á stuðlana. Síðan þá hefur þetta verið nokkuð stöðugt á degi hverjum.“
Ingólfur Árnason, greinandi í áhættustýringu hjá Sisu Group, móðurfélagi Epicbet, segir að af líklegustu frambjóðendunum hafi Þórdís Kolbrún skarað fram úr fyrstu dagana. Síðan hafi markaðurinn sveiflast í átt til Áslaugar Örnu, sem hafi fengið langflestu og stærstu veðmálin síðustu daga.
„Stuðlarnir okkar hafa því hreyfst í takt við það og teljum við hana líklegasta út frá veðmálum okkar viðskiptavina. Veðmálin dreifðust mikið til að byrja með og voru 12 líklegustu nöfnin að okkar mati öll komin með pening á sitt nafn á fyrsta degi.“
„Ólíklegir frambjóðendur, eða þeir sem eru ekki á þingi fyrir flokkinn, eins og Stefán Einar, Heiðrún Lind og Elliði Vignisson hafa öll fengið töluvert fleiri veðmál á sitt nafn en búist var við,“ bætir Ingólfur við.
Dr. Football eða Kata Jak næsti formaður?
Fjölbreytni veðmála, sem veðbankarnir tveir bjóða upp á, vekur nokkra athygli. Á Coolbet er hægt að veðja á Katrínu Jakobsdóttur, fyrrum forsætisráðherra, og Pál Orra Pálsson, sem bauð sig fram til formanns Heimdallar fyrir tæplega tveimur árum síðan.
„Það er auðvitað mjög langsótt að þessi tvö muni bjóða sig fram, en það er samt sem áður gaman að geta boðið upp á skemmtilega kosti inn á milli, og við sjáum að það er eftirspurn eftir því,“ segir talsmaður Coolbet.
Þá býður Epicbet upp á að veðja á Gísla Martein Baldursson, sjónvarpsmann og fyrrum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og Hjörvar Hafliðason, einnig þekktur sem Dr. Football.
Ingólfur hjá Epicbet segir það hafa komið honum hressilega á óvart hve mikla athygli Hjörvar Hafliðason hafi fengið.
„Það var einungis til gamans gert enda tengist hann flokknum lítið sem ekkert. Egill Einarsson og fleiri á samfélagsmiðlum hafa sýnt frá veðmálum sínum á Hjörvar sem hefur ábyggilega haft sín áhrif.“