Fjár­festar hafa verið í auknum mæli að sækja í gjald­eyris­tryggð skulda­bréf í vaxtar­hag­kerfum líkt og Keníu og Pakistan.

Um er að ræða lönd sem hafa lengi vel átt erfitt með að sækja er­lent fjár­magn en fjár­festar eru að sjá sér leik á borði vegna hárra vaxta og aukinna efna­hags­um­svifa.

Sam­kvæmt Financial Times hafa gjald­eyris­skuldir Egypta­lands, Pakistans, Nígeríu og Keníu árum saman verið með verstu eignum sem fjár­festar geta átt.

FT líkir virði þeirra á árum áður við gjaldfallnar skuldir en gjald­eyris­krísur hafa gert löndunum ein­stak­lega erfitt fyrir síðast­liðin ár.

Nú er þó staðan önnur því eftir þó­nokkrar vaxta­hækkanir eru gjald­eyris­tryggð skulda­bréf allt í einu orðinn fýsi­legur fjár­festingar­kostur.

„Meiri „off-pi­ste“ við­skipti“

Á meðan vextir eru að lækka í ögn stöðugri vaxtar­hag­kerfum eins og Brasilíu verður tveggja tölu­stafa á­vöxtunar­krafa ríkiskulda­bréfa í löndum eins og Keníu afar að­laðandi fjár­festinga­kostur

„Þú þarft að fara í ör­lítið meiri „off-pi­ste“ við­skipti ef þú vilt virki­lega græða peninga,“ segir sjóðs­stjóri sem fjár­festir í verð­bréfum í vaxtar­hag­kerfum í sam­tali við FT.

Sjóð­stjórinn sem vill ekki láta nafns síns getið er sagður eiga stórar stöður í egypskum ríkis­víxlum og skamm­tíma­skuldum í nígerísku nairi.

Fjárfesting í tyrkneskum skuldabréfum fjórfaldast

Fjár­festar eru meira að segja byrjaðir að leita til Tyrk­lands en ó­reiða í peninga­stefnu landsins hefur árum saman fælt er­lent fjár­magn frá.

Stýri­vextir í Tyrk­landi eru um 50% þar sem Tyrkjum hefur illa gengið að ná niður óða­verð­bólgunni í landinu og koma jafn­vægi á líruna.

Þessir sömu vextir eru nú að laða að sér er­lenda fjár­festa. Er­lend fjár­festing í ríkis­skulda­bréfum í lírum hefur fjór­faldast á árinu og áttu er­lendir fjár­festar ríkis­skulda­bréf að and­virði 10 milljarða Banda­ríkja­dali í lok maí.

Skuldir Egypta hafa einnig verið að sækja í sig veðrið og hafa er­lendir fjár­festar keypt svæðis­bundin skulda­bréf fyrir 15 milljarða dali á árinu.

Egyptar gengisfelldu til að mynda egypska pundið á árinu til að leyfa því að fljóta gagn­vart Banda­ríkja­dal í von um að fá meira er­lent fjár­magn til landsins.

Luis Costa, yfir­maður fjár­festinga í vaxta­hag­kerfum hjá Citi, segir stjórn­mála­menn í löndum á uppleið vera sýna mun meiri kunn­áttu í að laða að sér er­lent fjár­magn en áður.

Ekki hafa þó allar fjár­festingar á gjald­eyris­mörkuðum verið arð­bærar en er­lendir fjár­festar töpuðu víst vel á því er mexí­kóska pesóið hrundi eftir for­seta­kosningarnar í mánuðinum.