Fjárfestar hafa verið í auknum mæli að sækja í gjaldeyristryggð skuldabréf í vaxtarhagkerfum líkt og Keníu og Pakistan.
Um er að ræða lönd sem hafa lengi vel átt erfitt með að sækja erlent fjármagn en fjárfestar eru að sjá sér leik á borði vegna hárra vaxta og aukinna efnahagsumsvifa.
Samkvæmt Financial Times hafa gjaldeyrisskuldir Egyptalands, Pakistans, Nígeríu og Keníu árum saman verið með verstu eignum sem fjárfestar geta átt.
FT líkir virði þeirra á árum áður við gjaldfallnar skuldir en gjaldeyriskrísur hafa gert löndunum einstaklega erfitt fyrir síðastliðin ár.
Nú er þó staðan önnur því eftir þónokkrar vaxtahækkanir eru gjaldeyristryggð skuldabréf allt í einu orðinn fýsilegur fjárfestingarkostur.
„Meiri „off-piste“ viðskipti“
Á meðan vextir eru að lækka í ögn stöðugri vaxtarhagkerfum eins og Brasilíu verður tveggja tölustafa ávöxtunarkrafa ríkiskuldabréfa í löndum eins og Keníu afar aðlaðandi fjárfestingakostur
„Þú þarft að fara í örlítið meiri „off-piste“ viðskipti ef þú vilt virkilega græða peninga,“ segir sjóðsstjóri sem fjárfestir í verðbréfum í vaxtarhagkerfum í samtali við FT.
Sjóðstjórinn sem vill ekki láta nafns síns getið er sagður eiga stórar stöður í egypskum ríkisvíxlum og skammtímaskuldum í nígerísku nairi.
Fjárfesting í tyrkneskum skuldabréfum fjórfaldast
Fjárfestar eru meira að segja byrjaðir að leita til Tyrklands en óreiða í peningastefnu landsins hefur árum saman fælt erlent fjármagn frá.
Stýrivextir í Tyrklandi eru um 50% þar sem Tyrkjum hefur illa gengið að ná niður óðaverðbólgunni í landinu og koma jafnvægi á líruna.
Þessir sömu vextir eru nú að laða að sér erlenda fjárfesta. Erlend fjárfesting í ríkisskuldabréfum í lírum hefur fjórfaldast á árinu og áttu erlendir fjárfestar ríkisskuldabréf að andvirði 10 milljarða Bandaríkjadali í lok maí.
Skuldir Egypta hafa einnig verið að sækja í sig veðrið og hafa erlendir fjárfestar keypt svæðisbundin skuldabréf fyrir 15 milljarða dali á árinu.
Egyptar gengisfelldu til að mynda egypska pundið á árinu til að leyfa því að fljóta gagnvart Bandaríkjadal í von um að fá meira erlent fjármagn til landsins.
Luis Costa, yfirmaður fjárfestinga í vaxtahagkerfum hjá Citi, segir stjórnmálamenn í löndum á uppleið vera sýna mun meiri kunnáttu í að laða að sér erlent fjármagn en áður.
Ekki hafa þó allar fjárfestingar á gjaldeyrismörkuðum verið arðbærar en erlendir fjárfestar töpuðu víst vel á því er mexíkóska pesóið hrundi eftir forsetakosningarnar í mánuðinum.