Breska netverslunin Asos hefur gefið út hálfsárs uppgjör félagsins, sem lauk þann 28. febrúar. Þar kemur fram að hagnaður félagsins hafi numið 14,8 milljónum punda fyrir skatt á tímabilinu ágúst 2021 til febrúar 2022. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Þetta er mikil kúvending frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaður netverslunarinnar nam 113 milljónum punda fyrir skatt. Asos, sem rekur netverslun fyrir fataverslanir og snyrtivörur, naut góðs af samkomutakmörkunum sem voru við lýði í kórónuveirufaraldrinum.

Sölutekjur Asos jukust einungis um eitt prósent á milli ára, fóru úr 1,97 milljörðum punda í 2 milljarða punda. Dræm aukning sölutekna lítur sérlega illa út þegar litið er til þess að tekjur félagsins hafa sögulega séð aukist um fjórðung á hverju ári. Í nóvember lagði félagið fram markmið þess efnis að vaxa um 15-20 prósent á hverju ári á næstu þremur árum.

Fyrirtækinu hefur ekki tekist að halda vextinum gangandi í kjölfar afléttinga á samkomutakmörkunum. Það virðist vera að nú þegar hefðbundnar fataverslanir hafa opnað á ný hafa viðskiptavinir Asos kosið að versla einnig föt í hefðbundnum verslunum.

Matt Dunn, fjármálastjóri Asos, segir Ómíkron bylgjuna í janúarmánuði hafa skapað vandræði í framboðskeðjunni. Þannig hafi Asos ekki getað boðið upp á nægilega fjölbreyttar vörur og salan þar af leiðandi dregist saman.

Sjá einnig: Asos stefnir á aðalmarkað

Asos tilkynnti fyrr á árinu að félagið stefndi á skráningu á aðalmarkað kauphallarinnar í London, en fyrirtækið hefur verið skráð á hliðarmarkaði þess, Alternative Investment Market, frá árinu 2001.

Asos keypti nýlega vörumerkin Topshop, Topman og Miss Selfridge úr þrotabúi Arcadia veldi Philip Green fyrir 330 milljónir punda.