Sýrlenski seðlabankinn flutti um 35 milljarða króna, 250 milljónir Bandaríkjadala, til Moskvu í reiðufé með flutningavélum á tveggja ára tímabili.

Fjármunirnir eru taldir hafa verið notaðir til að greiða skuld Bashar al-Assad, þáverandi einræðisherra Sýrlands, við Kreml fyrir hernaðaraðstoð og til að kaupa eignir fyrir fjölskyldu Assad í Rússlandi. Financial Times greinir frá þessu nú fyrir stundu og segist hafa gögn um málið.

Samkvæmt gögnunum flutti stjórn Assads, sem glímdi við mikinn gjaldeyrisskort, seðla sem vógu nærri tvö tonn í 100 og 500 dala seðlum til Moskvu. Þessir peningar voru lagðir inn í rússneska banka, sem sættu refsiaðgerðum, bæði árið 2018 og 2019.

Stjórnarandstæðingar og vestræn stjórnvöld hafa sakað stjórn Assads um að ræna auðæfum Sýrlands og nota glæpastarfsemi til að fjármagna stríðið og auðgast sjálf. Peningasendingarnar til Rússlands fóru fram á sama tíma og Sýrland varð háð hernaðaraðstoð Kremls, þar á meðal Wagner-hópsins, auk þess sem fjölskylda Assads hóf kaup á lúxuseignum í Moskvu.

David Schenker, fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir málefni Miðausturlanda, sagði að flutningarnir kæmu sér ekki á óvart. „Stjórnin þurfti að tryggja illa fengin auðæfi sín og þjóðarauð Sýrlands á öruggum stað,“ segir hann í samtali við blaðið.

„Rússland hefur lengi verið skjól fyrir fjármuni stjórnar Assads,“ sagði Eyad Hamid, rannsakandi hjá Syrian Legal Development Programme, og bætti við að Moskva hafi orðið miðstöð fyrir að sniðganga vestrænar refsiaðgerðir sem settar voru á eftir að Assad barði niður uppreisnina árið 2011.

Frétt Financial Times.