Jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesskaga hafa haft talsverð áhrif á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækisins Þorbjarnar í Grindavík.

Hagnaður fyrirtækisins dróst verulega saman milli ára, nam 298 milljónum árið 2023 samanborið við 1,2 milljarða árið áður. Tekjur samstæðunnar námu 11,2 milljörðum króna í fyrra samanborið við 11,9 milljarða árið 2022. Lækkun tekna skrifast á minni vinnslu í Grindavík.

Í samstæðureikningi segir að frá því að bærinn var rýmdur í nóvember 2023 og til lok árs hafi aðeins verið tekið við um 30% af þeim afla sem hefði verið gert í eðlilegu ástandi. Stjórnendur áætla að framlegð landvinnslu sé um einni milljón evru, eða um 150 milljónum króna, lægri á árinu 2023.

Enn ríkir óvissa um starfsemi félagsins í Grindavík en í samstæðureikningi segir að ekki séu áform um að leggja niður framleiðslu í Grindavík eða færa hana annað að svo stöddu. Ástandið hafi ekki teljandi áhrif á útgerð félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.