Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var kynnt á blaðamannafundi rétt í þessu. Formlega var tilkynnt um að ráðuneytum verði fækkað úr tólf í ellefu.
Ráðuneytum verður fækkað úr tólf í ellefu. Kristrún sagði að verið sé að leggja niður ráðuneyti menningar, viðskipta og ferðamála. Viðskipta- og ferðamálahluti ráðuneytisins færist til matvælaráðuneytisins sem fær nýtt nafn atvinnuvegaráðuneytið.
Menningarhlutinn sameinast í gamla háskóla-, viðskipta- og nýsköpunarráðuneytið. Það verður menningar-, viðskipta- og nýsköpunarráðuneytið. Logi Einarsson tekur við því ráðuneyti.
Þá verða húsnæðismálin flutt frá innviðaráðuneytinu (sem fær nafnið samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið) til félagsmálaráðuneytisins sem fær nafnið húsnæðis- og félagsmálaráðuneytið. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tekur við því ráðuneyti.
Ráðherrar verða eftirfarandi
- Kristrún Frostadóttir verður forsætisráðherra.
- Daði Már Kristófersson verður fjármálaráðherra.
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður utanríkisráðherra.
- Inga verður húsnæðis og félagsmálaráðherra.
- Hanna Katrín Friðriksson verður atvinnuvegaráðherra.
- Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir verður dómsmálaráðherra.
- Logi Einarsson verður menningar, nýsköpunar og háskólaráðherra.
- Jóhann Páll Jóhannsson verður umhverfis, orku og loftslagsráðherra.
- Alma Möller verður heilbrigðisráðherra.
- Eyjólfur Ármannsson verður samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.
- Ásthildur Lóa Þórsdóttir verður mennta- og barnamálaráðherra.
Hvað varðar einstök málefni þá er m.a. áformað að þingsályktunartillaga verði mótum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið varðandi aðild Íslands. Vonast er til að sú kosning geti farið fram eigi síðar en árið 2027.
Birt hefur verið stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar.