Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og SA, tilkynnti á blaðamannafundi í morgun að hann hefur ákveðið að leggja fram nýja miðlunartillögu. Ástráður segist hafa náð samkomulagi við SA og Eflingu um afgreiðslu miðlunartillögunnar hjá aðildarfyrirtækjum SA og félagsfólki Eflingar.

SA og Efling hafa samþykkt að fresta öllum yfirstandandi og boðuðum vinnustöðvunum frá hádegi í dag og þangað til að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir.

Ástráður segir að nýja miðlunartillagan sé í „öllum verulegum atriðum algjörlega eins“ og fyrri miðlunartillagan. Gert sé ráð fyrir að launahækkanir félagsmanna Eflingar séu „algjörlega“ þær sömu og gildir um SGS samninginn. Tillagan geri jafnframt ráð fyrir fullri afturvirkni samningsins aftur til 1. nóvember 2022.

„Það er tekið upp í tillöguna eitt atriði sem er öðruvísi sem er að það er breyting á starfsheiti fyrir almennt starfsfólk í gistihúsum og breyting á röðun í launaflokk er það fólk varðar. En að öðru leyti er efnislega um að ræða sama samkomulag eins og gert var ráð fyrir í SGS samningnum.“

Atkvæðagreiðslan byrjar að óbreyttu kl. 12 á föstudaginn næsta, 3. mars, og lýkur kl. 10 miðvikudaginn 8. mars.

Nýja miðlunartillagan kemur í stað þeirrar sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram þann 27. janúar síðastliðinn að sögn Ástráðar.

„Þetta er auðvitað búin að vera dálítið erfið deila og hefur reynt á þolgæði aðila með ýmsum hætti. Ég vil leyfa mér að þakka þeim sérstaklega fyrir það að þeir hafa sýnt mikið úthald í því að vinna að því að leysa hana,“ segir Ástráður.

„Það er samkomulag þeirra um ýmis atriði sem varða ekki beinlínis efni miðlunartillögunnar en sem varða ýmis samskipti þeirra tengdum þessu kjaraumhverfi sem þeim tókst að lokum að ljúka í gær sem eru forsendur þess að mér er unnt að gera þessa miðlunartillögu nú.“