Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, gagnrýnir Stefán Ólafsson, starfsmann Eflingar, fyrir trúnaðarbrot. Ástráður var í viðtali á Bylgjunni í dag hjá Heimi Má Péturssyni fréttamanni.

Stefán Ólafsson, sem er fulltrúi í samninganefnd Eflingar, lýsti því yfir á Facebook síðu sinni fyrr í dag að samningafundur gærkvöldsins hefði strandað á „þúsundkalli.“

Ástráður segir frásögn Stefáns ekki rétta. Þá segir settur ríkissáttasemjari Stefán hafa brotið lög með því að upplýsa hvað hafi farið fram á fundinum.

„En ég ætla ekki að gera það sama og Stefán að fara að bera hér einhver vitni um það sem gerist á samningafundum. Þetta bara má ekki gerast og þetta er vís vegur til að hleypa þessari deilu endanlega út af teinunum ef menn ætla að fara þessa leið,“ sagði Ástráður í viðtali við Heimi Má.

Þetta er ekki í fyrsta skipti í kjaradeilu Eflingar og SA sem Stefán Ólafsson er sakaður um rangfærslur. Í byrjun síðustu viku, eftir samningafund félaganna með Ríkissáttasemjara, sakaði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, Stefán um að fara með rangfærslur um fundinn.

„Stefán hefur ekki látið staðreyndir þvælast fyrir sér fram til þessa og það hefur ekkert breyst,“ sagði Eyjólfur Árni í aðsendri grein á Vísi.