Tim Gurner, einn ríkasti maður Ástralíu, hefur beðist afsökunar á ummælum sem hann lét falla á fasteignafundi í vikunni þar sem hann sagði að atvinnuleysi ætti að aukast til að minna hrokafulla starfsmenn á hvað þeir hafa það gott.

Meira en 23 milljónir manns hafa séð myndbandið af ummælum hans, sem hefur farið sem eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum.

Gurner er meðal annars stofnandi og forstjóri Gurner Group, samsteypu sem sérhæfir sig í að selja lúxusheimili. Forstjórinn hefur áður sagt að hann hafi stofnaði fyrirtækið eftir að hafa fengið stórfellt lán frá afa sínum og fyrrum vinnuveitanda.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem milljónamæringurinn og fasteignamógúllinn hefur vakið reiði heimsbúa en árið 2017 hélt hann því fram að ungt fólk ætti ekki efni á húsnæði því það eyddi of miklum fjármunum í ristað brauð með avakadó.

Á fasteignafundinum sagði hann að núverandi atvinnuleysistölur í Ástralíu, sem eru nú í kringum 3,7%, ættu að hækka um 40-50% til að draga úr „hroka á vinnumarkaði“. Það myndi verða til þess að meira en 200.000 manns myndu missa vinnuna.

„Það hefur orðið kerfisbundin breyting þar sem starfsmönnum finnst eins og vinnuveitandi sé heppinn að hafa þá. Við þurfum að minna fólk á að það vinnur hjá vinnuveitandanum, ekki öfugt,“ sagði Gurner.

Hann baðst svo afsökunar á ummælum sínum og sagði þau hafa verið móðgandi gagnvart starfsmönnum, verktökum og fjölskyldum í Ástralíu sem finna mikið fyrir auknum framfærslukostnaði og atvinnumissi.

Jerome Laxale, þingmaður ástralska Verkamannaflokksins, fordæmdi ummæli Gurner og sagði þau líkjast ummælum sem maður myndi búast við frá ofurillmenni í teiknimyndasögu. Keith Wolahan, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að Gurner gæti ekki verið aftengdur samfélaginu.

„Atvinnuleysi er ekki bara tala. Það veldur því að fólk endar úti á götu og þarf að reiða sig á aðstoð frá matbönkum,“ segir Wolahan.