Auglýsingastofan SAHARA hefur sett upp mælaborð sem fylgist með því í rauntíma hvað frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru að gera á Google, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
Samkvæmt mælaborðinu hefur Facebook síðan Ástþór forseti eytt 7,8 milljónum í auglýsingar á samfélagsmiðlum á síðustu 90 dögum.
Facebook-síðan Halla Hrund- fyrir framtíðina hefur eytt næstmest en samkvæmt mælaborðinu hefur Halla Hrund keypt auglýsingar fyrir rúma hálfa milljón á sama tímabili.
Halla Tómasdóttir og Jón Gnarr hafa einnig eytt yfir hálfri milljón í auglýsingar á samfélagsmiðlum.
Ásdís Rán (IceQueen) hefur eytt langminnst eða um 130 krónum á tímabilinu. Sahara tekur fram það séu ekki nægar upplýsingar um Facebook síður Eiríks Inga Jóhannssonar og Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur.

Mælaborðið, sem er beintengt við gögn hjá Google og Meta, sýnir einnig upplýsingar um þróun á fjölda fylgjenda allra frambjóðenda á samfélagsmiðlum og áhuga á þeim, byggt á leitum í leitarvél Google.
„Sérfræðingar Sahara hreykja sér af því að vera gagnadrifin og tóku því saman þetta mælaborð til að fylgjast með helstu gögnum í kringum samfélagsmiðla og Google í aðdraganda forsetakosninganna. Við tókum saman sambærilegt mælaborð í síðustu alþingiskosningum og sáum okkur leik á borði að endurtaka þann leik og vonum að almenningur hafi fyrst og fremst gaman af þessu,” segir Andreas Aðalsteinsson, yfirmaður stafrænnar deildar og partner hjá SAHARA í tilkynningu.
Hægt er að fylgjast með mælaborðinu hér.