Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics (AT) hefur tryggt sér 12,5 milljón evra fjármögnun, sem samsvarar rúmlega 1,9 milljarði íslenskra króna, frá The European Innovation Council (EIC). Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.
Þar segir að fjármögnunin sé í formi styrks að virði 2,5 milljónir evra, auk 10 milljóna evra hlutafjárframlags frá fjárfestingarmi stofnunarinnar, EIC Fund. Fjármagnið verði nýtt til þess að hefja næsta þróunarfasa á lyfi fyrirtækisins við ættgengri íslenskri heilablæðingu.
Rannsóknir AT sýni einnig fram á virkni gegn heilabilun af öðrum orsökum, þar á með Alzheimer-sjúkdómnum, og muni þar með geta aukið lífsgæði milljóna manna um allan heim með því að koma í veg fyrir og meðhöndla sjúkdóminn.
„Það er mikil viðurkenning á verkefninu að EIC hafi samþykkt að fjármagna það. Fjármögnunin er stærsta fjármögnun sinnar tegundar sem íslenskt fyrirtæki hefur tryggt sér frá EIC Funds. Við erum í einstakri stöðu til þess að verða eitt af fyrstu fyrirtækjunum á heimsvísu til þess að koma lyfi við heilbilun á markað, en um 55 milljónir manna berjast við sjúkdóminn á hverju ári og það hefur ekki tekist enn að þróa árangursríka meðferð við honum,“ er haft eftir Ívari Hákonarsyni, forstjóra AT.
AT var stofnað af Hákoni Hákonarssyni, lækni og sérfræðingi í lungna- og genarannsóknum við Center of Applied Genomics (CAG) hjá Barnaháskólasjúkrahúsi Fíladelfíu og Háskóla Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Lyfjaþróun AT byggir á 16 ára erfðarannsóknum í samstarfi við CAG.
„Ég er einstaklega stoltur af því að þrotlaus vinna síðustu ára sé að skila áþreifanlegum árangri, og það er sérstaklega ánægjulegt hafa tækifæri til þess að byggja upp framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi. Hefðbundin frumheitalyfjaþróun er dýr, tímafrek og henni fylgir mikil áhætta – kostnaður við að koma frumheitalyfi á markað kostar tvo til þrjá milljarða Bandaríkjadala. Með því að nota erfðafræðirannsóknir er hægt að draga verulega úr áhættu við lyfjaþróun og stytta þróunarferlið um mörg ár og lækka kostnað mikið,“ segir stofnandinn Hákon.
„Fjármögnunin fylgir í kjölfarið á frekari viðurkenningu um mikilvægi starfsemi félagsins á sviði erfðafræðirannsókna til þess að styðja við markvissari lyfjaþróun. Fyrr á árinu var félagið valið eitt framsæknasta fyrirtæki Evrópu á sviði erfðavísinda og lyfjaþróunar af Life Sciences Review, sem er leiðandi tímarit um líftækni í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir í fréttatilkynningu.
AT sé með fjögur önnur lyfi í þróun, þar á meðal lyf við hinum ýmsu húð- og bólgusjúkdómum, sem einnig byggi á sömu nálgun. Kostnaður við lyfjaþróunina sé aðeins að brot af því það sem það kosti að koma hefðbundnu frumheitalyfi á markað, en heildarmarkaðstærð þeirra lyfja sem AT sé með í þróun sé vel yfir 100 milljarðar Bandaríkjadala.
Reikna með að sækja 10 milljónir evra til viðbótar
Í tilkynningunni segir að íslenskir og erlendir fjárfestar hafi einnig sýnt AT verulegan áhuga að undanförnu og reiknar félagið því með að sækja sér að minnsta kosti 10 milljónir evra til viðbótar á komandi mánuðum til að styðja enn frekar við vöxt og hraða lyfjaþróun, sem mun fara fram á Íslandi.
„AT er nú þegar með 10 starfsmenn á Íslandi og til stendur að ráða 10-20 starfsmenn til viðbótar á næstu mánuðum. Áætlað er að starfsmenn verði um 25 í lok næsta árs. Ísland er einstaklega hentugur staður til að byggja upp fyrirtæki eins og AT. Það hefur skapast mikil reynsla og þekking á erfðafræði og lyfjaþróun á Íslandi samhliða vexti fyrirtækja eins og Íslenskrar erfðagreiningar, Actavis og Alvotech svo dæmi séu tekin, og það mun gera félaginu kleift að tryggja sér hæfileikaríkt starfsfólk til þess að keyra áfram komandi vaxtarferli. Auk lyfja í þróun, starfrækir AT íslenskan erfða- og ættfræðirgrunn og rannsóknarstofu á Akureyri, sem er tengd við sjúkraskrárkerfi landsmanna. Félagið hefur einnig tryggt sér leyfi til þess að byggja upp lífsýnasafn á Íslandi á næstu árum. Þangað til að lífsýnasafnið verður nægilega viðamikið til þess að nýtast sem best við lyfjaþróun félagsins mun AT starfa áfram náinni samvinnu við CAG í Bandaríkjunum,“ segir að lokum í fréttatilkynningu AT.