Leigubílaráð Hong Kong tilkynnti nýlega herferð sem hefur það markmið að umturna almenningsáliti á leigubílstjórum í borginni en þeir eru ein algengasta kvörtun meðal heimamanna og ferðamanna þegar þeir eru spurðir út í neikvæðu hliðar Hong Kong.

Bílstjórar í Hong Kong eru ekki aðeins frægir fyrir dónaskap, heldur neita þeir oft að þiggja farþega og keyra gjarnan lengri leiðir til að láta viðskiptavini borga meira.

Fréttamiðillinn BBC ræddi meðal annars við fyrirtækjaeiganda að nafni Louis Ho. Hann lýsir því hvernig leigubílstjórar neituðu oft að fara með hann og móður hans, sem var í hjólastól, á spítala þegar þau áttu tíma bókaðan hjá lækni.

„Bílstjórinn þurfti ekki einu sinni að bera mömmu eða hjólastólinn. Ég gerði allt sjálfur,“ segir Louis, sem missti móður sína árið 2018.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem yfirvöld í Hong Kong setja herferð í gang til að bæta ímynd borgarinnar. Fyrr í sumar var íbúum í Hong Kong sagt að taka þátt í að auka upplifun gesta, vera kurteisari og brosa meira.

Kevin Yeung, menningar-, íþrótta- og ferðamálaráðherra Hong Kong, sagði að svartir sauðir í borginni væru að skemma ímynd Hong Kong og benti hann þá sérstaklega á dónalega leigubílstjóra í borginni.

„Margir leigubílstjórar eiga það svo til að kvarta alla leiðina eftir að ég sest upp í bíl til þeirra.“

Annar íbúi, Kenny Tong, segist aðeins taka leigubíl þrisvar í mánuði og vill forðast leigubíla eins mikið og hann getur. Hann lýsir ferlinu þannig að hann þurfi oft að byrja á því að veifa í átt til bílstjóra, hneigja sig svo fyrir bílstjóranum og athuga svo fyrst hvort áfangastaðurinn sé hentugur fyrir bílstjórann þann dag.

„Margir leigubílstjórar eiga það svo til að kvarta alla leiðina eftir að ég sest upp í bíl til þeirra,“ segir Kenny og bætir við að þeir neiti að nota GPS, þrátt fyrir að vera með nokkra snjallsíma á mælaborðinu.