Tónskáldið Atli Örvarson er í þrettánda sæti á lista yfir einstaklinga sem greiddu hæstu fjármagnstekjurnar árið 2022 en fjármagnstekjur hans námu 989 milljónum króna í fyrra.

Hann var einnig á lista Viðskiptablaðsins fyrir árið 2021, þegar hann var með 568 milljónir króna í fjármagnstekjur, og á lista Stundarinnar fyrir árið 2020, þegar hann var með 118 milljónir.

Atli, sem heitir fullu nafni Örvar Atli Örvarsson, hefur samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta í Bandaríkjunum, þar sem hann bjó um árabil áður en hann flutti aftur heim til Akureyrar árið 2020.

Nýverið samdi hann tónlistina fyrir sjónvarpsþættina „Silo“ sem byggðir eru á samnefndri skáldsagnaröð. Þættirnir voru frumsýndir á Apple TV+ á þessu ári og hafa hlotið mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda.

Einn annar tónlistarmaður er á listanum yfir þá 150 einstaklinga sem voru með hæstu fjármagnstekjurnar árið 2022 en Ólafur Arnalds er í 80. sæti með 226 milljónir króna.

Listi yfir þá 150 einstaklinga sem voru með hæstu fjármagnstekjurnar í fyrra birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta nálgast listann hér.