Forseti Argentínu, Javier Milei, hefur formlega slitið samstarfi við fyrrverandi forseta landsins Mauricio Macri og flokk hans, Propuesta Republicana (PRO).
Með þessu lýkur áhrifamiklu en stuttu bandalagi tveggja helstu leiðtoga íhaldsafla í landinu og hefst valdabarátta um forystu hægri vængsins utan raða perónista.
Milei, sem lýsir sjálfum sér sem anarkókapítalista, naut lykilstuðnings Macris í forsetakosningunum 2023.
Stuðningur Macris hjálpaði Milei að ná til „hófsamra“ kjósenda en fyrrverandi ráðherrar úr herbúðum Macris slógu á áhyggjur fjárfesta og PRO veitti forsetanum mikilvægan þingstuðning.
En Milei hefur ekki launað greiðann samkvæmt Financial Times og stefnir nú að því að veikja eða jafnvel leggja PRO að velli í komandi sveitar- og þingkosningum.
Honum er mikið í mun að festa flokk sinn, La Libertad Avanza (LLA), í sessi sem helsta andstæðing vinstrisinnaðra perónista.
„Ef þú getur ekki unnið með PRO, sem hefur bjargað þér fimm sinnum á þessu einu og hálfa ári…“ sagði Macri í sjónvarpsviðtali nýverið, áður en hann þagnaði og bætti við: „Þú getur ekki verið í stöðugu stríði við alla.“
Baráttan um Buenos Aires
Helstu átökin beinast nú að Buenos Aires-borg sem sögulega hefur verið sterkt vígi PRO. Þar stefnir LLA að því að vinna sigur í borgarstjórnarkosningum þann 18. maí. Þá hefur flokkurinn hafnað samkomulagi við PRO fyrir komandi þingkosningar í október.
Milei hefur tilnefnt sinn eigin talsmann, Manuel Adorni, sem oddvita í borginni.
Könnun á fylgi bendir til harðrar baráttu, þar sem PRO gæti lent í þriðja sæti, á eftir bæði Perónistum og LLA. Ef svo fer, telja sumir í ríkisstjórninni að það kunni að marka endalok PRO sem trúverðugs stjórnmálaafls.
Ráðherrar skipta um flokk
Macri, forseti Argentínu á árunum 2015–2019, studdi í fyrstu róttækar efnahagsaðgerðir Mileis og lýsti yfir aðdáun sinni á forsetanum.
En tengsl þeirra stirðnuðu þegar ljóst varð að Milei hafði engan áhuga á formlegri valddreifingu eða samstjórn.
Nokkrir áhrifamiklir embættismenn úr herbúðum Macris hafa sagt sig úr PRO og gengið til liðs við LLA.
Í vikunni ákvað Patricia Bullrich, forsetaframbjóðandi PRO árið 2023 og núverandi öryggisráðherra, að ganga til liðs við flokk Mileis.
Macri hefur undanfarið gagnrýnt forsetann fyrir að sýna stofnunum landsins virðingarleysi, meðal annars fyrir að reyna að skipa hæstaréttardómara með forsetaúrskurði.
„Þegar hann ræddi við mig um framtíðarsýn sína fyrir landið fylltist ég von. En það sem hófst sem áætlun fyrir landið hefur breyst í verkefni um völd,“ sagði Macri í viðtali á dögunum.