For­seti Argentínu, Javi­er Milei, hefur form­lega slitið sam­starfi við fyrr­verandi for­seta landsins Mauricio Macri og flokk hans, Propu­esta Repu­bli­cana (PRO).

Með þessu lýkur áhrifa­miklu en stuttu banda­lagi tveggja helstu leið­toga íhalds­afla í landinu og hefst valda­barátta um for­ystu hægri vængsins utan raða perónista.

Milei, sem lýsir sjálfum sér sem anar­kókapítalista, naut lykil­stuðnings Macris í for­seta­kosningunum 2023.

Stuðningur Macris hjálpaði Milei að ná til „hóf­samra“ kjó­senda en fyrr­verandi ráðherrar úr her­búðum Macris slógu á áhyggjur fjár­festa og PRO veitti for­setanum mikilvægan þingstuðning.

En Milei hefur ekki launað greiðann sam­kvæmt Financial Times og stefnir nú að því að veikja eða jafn­vel leggja PRO að velli í komandi sveitar- og þing­kosningum.

Honum er mikið í mun að festa flokk sinn, La Libertad Avanza (LLA), í sessi sem helsta and­stæðing vinstri­sinnaðra perónista.

„Ef þú getur ekki unnið með PRO, sem hefur bjargað þér fimm sinnum á þessu einu og hálfa ári…“ sagði Macri í sjón­varps­viðtali nýverið, áður en hann þagnaði og bætti við: „Þú getur ekki verið í stöðugu stríði við alla.“

Baráttan um Buenos Aires

Helstu átökin beinast nú að Buenos Aires-borg sem sögu­lega hefur verið sterkt vígi PRO. Þar stefnir LLA að því að vinna sigur í borgar­stjórnar­kosningum þann 18. maí. Þá hefur flokkurinn hafnað sam­komu­lagi við PRO fyrir komandi þing­kosningar í október.

Milei hefur til­nefnt sinn eigin tals­mann, Manuel Adorni, sem odd­vita í borginni.

Könnun á fylgi bendir til harðrar baráttu, þar sem PRO gæti lent í þriðja sæti, á eftir bæði Perónistum og LLA. Ef svo fer, telja sumir í ríkis­stjórninni að það kunni að marka enda­lok PRO sem trúverðugs stjórn­mála­afls.

Ráðherrar skipta um flokk

Macri, for­seti Argentínu á árunum 2015–2019, studdi í fyrstu róttækar efna­hags­að­gerðir Mileis og lýsti yfir aðdáun sinni á for­setanum.

En tengsl þeirra stirðnuðu þegar ljóst varð að Milei hafði engan áhuga á form­legri vald­dreifingu eða sam­stjórn.

Nokkrir áhrifa­miklir em­bættis­menn úr her­búðum Macris hafa sagt sig úr PRO og gengið til liðs við LLA.

Í vikunni ákvað Pat­ricia Bullrich, for­seta­fram­bjóðandi PRO árið 2023 og núverandi öryggis­ráðherra, að ganga til liðs við flokk Mileis.

Macri hefur undan­farið gagn­rýnt for­setann fyrir að sýna stofnunum landsins virðingar­leysi, meðal annars fyrir að reyna að skipa hæstaréttar­dómara með for­setaúr­skurði.

„Þegar hann ræddi við mig um framtíðarsýn sína fyrir landið fylltist ég von. En það sem hófst sem áætlun fyrir landið hefur breyst í verk­efni um völd,“ sagði Macri í viðtali á dögunum.