Töluverð röskun hefur verið á alþjóðlegum flugferðum til og frá Mið-Austurlöndunum vegna átaka á svæðinu undanfarna daga. Tugum flugferða hefur verið aflýst og ríkir mikil óvissa í nærliggjandi löndum vegna stigmagnandi spennu.

Á vef BBC segir að flugvöllurinn í Doha, sem er mikilvæg miðstöð flugumferðar á svæðinu, hafi stöðvað alla starfsemi í gær eftir eldflaugaárásir Írana á bandarískar herstöðvar í landinu.

Flugvöllurinn í Dúbaí, sem er einn annasamasti flugvöllur í heimi, neyddist einnig til að hætta starfsemi tímabundið og hefur farþegum verið sagt að þeir megi búast við frekari töfum og aflýsingum.

Air India hefur aflýst öllum ferðum til og frá Mið-Austurlöndunum og tilkynnti Japan Airlines að búið væri að aflýsa flugi frá Tókýó til Doha.

Flugvellirnir í Dúbaí og Doha taka á móti rúmlega 400 þúsund farþegum á hverjum degi. Hátt í 80.000 farþegar ferðast einnig daglega um hinn flugvöllinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Abu Dhabi.

Átök þrengja að flugumferð

Samkvæmt gögnum frá ráðgjafarfyrirtækinu Osprey Flight Solutions, sem sérhæfir sig í flugáhættu, hafa sex farþegaflugvélar verið skotnar niður óviljandi síðan 2001.

Þekktasta atvikið var árið 2014 þegar skæruliðar í austurhluta Úkraínu skutu niður flugvél á vegum Malaysia Airlines sem var með 298 farþega um borð.

Lofthelgi Rússlands og Úkraínu hefur þegar verið lokað vegna átakanna þar en það hefur leitt til þess að enn fleiri flugferðum hefur verið beint til Mið-Austurlandanna.

Frá því að árásir Ísraela hófust hafa flugfélög forðast að fljúga yfir Íran, Írak, Líbanon, Sýrland og Jórdaníu. Rúmlega 1.400 flugvélar sem fara á milli Asíu og Evrópu fljúga reglulega yfir þessi svæði en nú þurfa þær annaðhvort að fljúga norður yfir Tyrkland eða suður yfir Sádí-Arabíu.