Alls hafa átta félög á aðalmarkaði hækkað um meira en 30% síðastliðna þrjá mánuði en íslenski hlutabréfamarkaðurinn byrjaði að taka við sér að nýju á þriðja ársfjórðungi.
Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq leiðir hækkanir á tímabilinu en gengi félagsins hefur hækkað um rúm 41% og stendur nú í 143,25 krónum.
Gengi félagsins stóð hæst í 150,5 krónum í marsmánuði en lækkaði síðan töluvert í sumar og fór í sitt lægsta gildi frá skráningu í byrjun ágúst er dagslokagengið var 99,8 krónur. Örlítið flökt var á genginu næstu vikurnar en gengið tók síðan við sér um miðjan septembermánuð.
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, hefur sagt að félagið muni ná að hefja gullframleiðslu á fjórða ársfjórðungi þessa árs.
Hlutabréf í Oculis hafa einnig hækkað um meira en 40% en gengi líftæknilyfjafélagsins byrjaði að hækka í byrjun októbermánaðar þegar fjárfestar byrjuðu að taka stöður í tengslum við væntingar um markaðsleyfi fyrir OCS-1 augndropunum í Bandaríkjunum.
Lyfjafyrirtækið birti árshlutauppgjör fyrir opnun markaða í gær en þar kom fram að félagið muni sækja um markaðsleyfi hjá Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) á fyrsta fjórðungi næsta árs.
Gengi líftæknilyfjafélagsins hefur lækkað um 6,5% síðustu tvo viðskiptadaga. Hlutabréfaverð félagsins hefur þó hækkað um tæp 41% síðustu þrjá mánuði.
Þrjú fasteignafélög meðal félaganna átta
Hlutabréfaverð þriggja fasteignafélaga hafa hækkað um meiri en 30% á tímabilinu og leiðir gengi Heima með 38% hækkun síðustu mánuði.
Hlutabréf í Heimum hafa einnig hækkað mest á árinu er gengi félagsins hefur farið úr 24,1 krónu í 34 krónur sem samsvarar tæplega 42% hækkun það sem af er ári.
Gengi fasteignafélagsins Eikar hefur hækkað næstmest af fasteignafélögunum á aðalmarkaði er gengi félagsins hefur hækkað um rúm 36% síðastliðna þrjá mánuði.
Í lok ágústmánaðar keypti fjárfestingafélagið Langisjór 6 milljónir hluta í Eik ásamt því að taka við 442 milljón hlutum af dótturfélagi sínu Brimgörðum.
Í kjölfarið myndaðist skylda til að leggja fram yfirtökutilboð.
Tilboðsverð Langasjávar hljóðaði upp á 11 krónur fyrir hvern hlut en þegar tilboðið var lagt fram var hæsta verð sem einhver hafði greitt fyrir hlutabréf í Eik á síðustu sex mánuðum 11,2 fyrir hvern hlut.
Aðeins barst samþykki fyrir alls 247.190 hlutum í Eik en gengi Eikar hækkaði töluvert skömmu eftir að tilboð barst til hluthafa.
Dagslokagengi Eikar í dag var 13,3 krónur sem er um 23% hærra en tilboðsverð Langasjávar fyrr í haust.
Kaldalón er þriðja fasteignafélagið sem hefur hækkað um meira en 30% en gengi félagsins hefur hækkað um 36% síðastliðna þrjá mánuði.
Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 1,9 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og var arðsemi eigin fjár 17,3% á ársgrundvelli.
Í lok október var greint frá því að félagið hefði skrifað undir samninga um kaup á öllu hlutafé í annars vegar IDEA ehf. og hins vegar K190 hf. en umrædd félög eiga samanlagt sjö fasteignir að stærð um 17.600 fermetrar.
Heildarvirði umræddra félaga í viðskiptunum er 8.335 milljónir króna og er áætlað að afhending verði fyrir árslok 2024.
Gengi Icelandair fór yfir eina krónu á tímabilinu
Þá hefur gengi Icelandair tekið við sér á síðustu þremur mánuðum en gengi félagsins hefur eytt meirihluta ársins undir einni krónu.
Hlutabréfaverð Icelandair fór úr 0,868 krónum í 1,16 krónur á tímabilinu en gengið hefur sveiflast töluvert síðustu vikut vegna flökts á olíuverði í kjölfar átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.
Icelandair birti farþegatölur fyrir opnun markaða á miðvikudaginn sem sýndu aukna eftirspurn eftir ferðum til Íslands. Flugfélagið hefur flutt yfir 4 milljónir farþega á árinu sem er um 8% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Gengi Icelandair hefur hækkað um 33% síðastliðna þrjá mánuði.
Samlegð Lyfju og Festi mikil
Hlutabréfaverð Festi hefur einnig hækkað töluvert á síðustu mánuðum en gengið tók kipp í kjölfar árshlutauppgjörs þriðja ársfjórðungs í lok október.
Festi hækkaði afkomuspá sína fyrir árið um 400 milljónir fyrir árið þar sem afkoma á fjórðungnum var betri en vonir stóðu til, þá sérstaklega vegna góðar samlegðar við Lyfju sem kom inn í samstæðuna 1. júní.
Afkoma félagsins fyrir árið er nú áætluð á bilinu 12,7 til 13,1 milljarður króna.
Vörusala félagsins nam 44,2 milljörðum króna á fjórðungnum og jókst um 6,9 milljarða eða 18,5% milli ára.
EBITDA- fjórðungsins var 4,7 milljarðar og hækkar um 836 milljónir eða 21,4% milli ára en 9,3% án áhrifa Lyfju.
Þá hefur gengi Símans einnig hækkað meira en 30% á tímabilinu og farið úr 9,1 krónu í 11,9 krónur.
Síminn birti árshlutauppgjör í lok október en fjarskiptafélagið hagnaðist um 449 milljónir króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi samanborið við 507 milljónir árið áður.
Samdráttinn má rekja til hærri fjármagnsgjalda en rekstrarafkoma félagsins jókst milli ára.
Tekjur Símans á fjórðungnum námu tæplega 6,8 milljörðum króna og jukust um 7% milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar (EBITDA) jókst um 5,7% milli ára og nam 1,9 milljörðum.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um rúm 19% á tímabilinu og farið úr 2.269 í 2.709 stig.
Úrvalsvísitalan hefur ekki verið hærri síðan í apríl 2023.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun nóvember hefur vísitalan hækkað meira en norrænar hlutabréfavísitölur bæði á árinu og á ársgrundvelli.