Alls hafa átta félög á aðal­markaði hækkað um meira en 30% síðastliðna þrjá mánuði en ís­lenski hluta­bréfa­markaðurinn byrjaði að taka við sér að nýju á þriðja árs­fjórðungi.

Hluta­bréfa­verð málm­leitarfélagsins Amaroq leiðir hækkanir á tíma­bilinu en gengi félagsins hefur hækkað um rúm 41% og stendur nú í 143,25 krónum.

Gengi félagsins stóð hæst í 150,5 krónum í marsmánuði en lækkaði síðan tölu­vert í sumar og fór í sitt lægsta gildi frá skráningu í byrjun ágúst er dagsloka­gengið var 99,8 krónur. Ör­lítið flökt var á genginu næstu vikurnar en gengið tók síðan við sér um miðjan septem­ber­mánuð.

Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq, hefur sagt að félagið muni ná að hefja gull­fram­leiðslu á fjórða árs­fjórðungi þessa árs.

Hluta­bréf í Ocu­lis hafa einnig hækkað um meira en 40% en gengi líftækni­lyfjafélagsins byrjaði að hækka í byrjun október­mánaðar þegar fjár­festar byrjuðu að taka stöður í tengslum við væntingar um markaðs­leyfi fyrir OCS-1 augn­dropunum í Bandaríkjunum.

Lyfja­fyrir­tækið birti árs­hluta­upp­gjör fyrir opnun markaða í gær en þar kom fram að félagið muni sækja um markaðs­leyfi hjá Mat­væla- og lyfja­eftir­lits Bandaríkjanna (FDA) á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Gengi líftækni­lyfjafélagsins hefur lækkað um 6,5% síðustu tvo við­skipta­daga. Hluta­bréfa­verð félagsins hefur þó hækkað um tæp 41% síðustu þrjá mánuði.

Þrjú fasteignafélög meðal félaganna átta

Hluta­bréfa­verð þriggja fast­eignafélaga hafa hækkað um meiri en 30% á tíma­bilinu og leiðir gengi Heima með 38% hækkun síðustu mánuði.

Hluta­bréf í Heimum hafa einnig hækkað mest á árinu er gengi félagsins hefur farið úr 24,1 krónu í 34 krónur sem sam­svarar tæp­lega 42% hækkun það sem af er ári.

Gengi fast­eignafélagsins Eikar hefur hækkað næst­mest af fast­eignafélögunum á aðal­markaði er gengi félagsins hefur hækkað um rúm 36% síðastliðna þrjá mánuði.

Í lok ágúst­mánaðar keypti fjár­festingafélagið Langi­sjór 6 milljónir hluta í Eik ásamt því að taka við 442 milljón hlutum af dóttur­félagi sínu Brim­görðum.

Í kjölfarið myndaðist skylda til að leggja fram yfir­töku­til­boð.

Til­boðsverð Langa­sjávar hljóðaði upp á 11 krónur fyrir hvern hlut en þegar til­boðið var lagt fram var hæsta verð sem ein­hver hafði greitt fyrir hluta­bréf í Eik á síðustu sex mánuðum 11,2 fyrir hvern hlut.

Aðeins barst samþykki fyrir alls 247.190 hlutum í Eik en gengi Eikar hækkaði tölu­vert skömmu eftir að til­boð barst til hlut­hafa.

Dagsloka­gengi Eikar í dag var 13,3 krónur sem er um 23% hærra en til­boðsverð Langa­sjávar fyrr í haust.

Kaldalón er þriðja fast­eignafélagið sem hefur hækkað um meira en 30% en gengi félagsins hefur hækkað um 36% síðastliðna þrjá mánuði.

Fast­eignafélagið Kaldalón hagnaðist um 1,9 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og var arð­semi eigin fjár 17,3% á árs­grund­velli.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Í lok október var greint frá því að félagið hefði skrifað undir samninga um kaup á öllu hluta­fé í annars vegar IDEA ehf. og hins vegar K190 hf. en um­rædd félög eiga saman­lagt sjö fast­eignir að stærð um 17.600 fer­metrar.

Heildar­virði um­ræddra félaga í við­skiptunum er 8.335 milljónir króna og er áætlað að af­hending verði fyrir árs­lok 2024.

Gengi Icelandair fór yfir eina krónu á tímabilinu

Þá hefur gengi Icelandair tekið við sér á síðustu þremur mánuðum en gengi félagsins hefur eytt meiri­hluta ársins undir einni krónu.

Hluta­bréfa­verð Icelandair fór úr 0,868 krónum í 1,16 krónur á tíma­bilinu en gengið hefur sveiflast tölu­vert síðustu vikut vegna flökts á olíu­verði í kjölfar átaka fyrir botni Miðjarðar­hafs.

Icelandair birti farþegatölur fyrir opnun markaða á miðviku­daginn sem sýndu aukna eftir­spurn eftir ferðum til Ís­lands. Flug­félagið hefur flutt yfir 4 milljónir farþega á árinu sem er um 8% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Gengi Icelandair hefur hækkað um 33% síðastliðna þrjá mánuði.

Samlegð Lyfju og Festi mikil

Hluta­bréfa­verð Festi hefur einnig hækkað tölu­vert á síðustu mánuðum en gengið tók kipp í kjölfar árs­hluta­upp­gjörs þriðja árs­fjórðungs í lok október.

Festi hækkaði af­komu­spá sína fyrir árið um 400 milljónir fyrir árið þar sem af­koma á fjórðungnum var betri en vonir stóðu til, þá sér­stak­lega vegna góðar sam­legðar við Lyfju sem kom inn í sam­stæðuna 1. júní.

Af­koma félagsins fyrir árið er nú áætluð á bilinu 12,7 til 13,1 milljarður króna.

Vöru­sala félagsins nam 44,2 milljörðum króna á fjórðungnum og jókst um 6,9 milljarða eða 18,5% milli ára.

EBITDA- fjórðungsins var 4,7 milljarðar og hækkar um 836 milljónir eða 21,4% milli ára en 9,3% án áhrifa Lyfju.

Þá hefur gengi Símans einnig hækkað meira en 30% á tíma­bilinu og farið úr 9,1 krónu í 11,9 krónur.

Síminn birti árs­hluta­upp­gjör í lok október en fjar­skipta­félagið hagnaðist um 449 milljónir króna eftir skatta á þriðja árs­fjórðungi saman­borið við 507 milljónir árið áður.

Sam­dráttinn má rekja til hærri fjár­magns­gjalda en rekstrar­af­koma félagsins jókst milli ára.

Tekjur Símans á fjórðungnum námu tæp­lega 6,8 milljörðum króna og jukust um 7% milli ára. Rekstrar­hagnaður félagsins fyrir mats­breytingar (EBITDA) jókst um 5,7% milli ára og nam 1,9 milljörðum.

Úr­vals­vísi­talan hefur hækkað um rúm 19% á tíma­bilinu og farið úr 2.269 í 2.709 stig.

Úr­vals­vísi­talan hefur ekki verið hærri síðan í apríl 2023.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun nóvember hefur vísitalan hækkað meira en norrænar hlutabréfavísitölur bæði á árinu og á ársgrundvelli.