Skráð atvinnuleysi í desember var 3,6% og hækkaði úr 3,4% í nóvember, samkvæmt mánaðarlegri skýrslu Vinnumálastofnunar. Til samanburðar var skráð atvinnuleysi 3,4% í desember 2022. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi gæti orðið á bilinu 3,6% til 3,8% í janúar 2024.
Að meðaltali voru 6.848 atvinnulausir í desember, 3.975 karlar og 2.873 konur. Að meðaltali fjölgaði atvinnulausum um 322 frá nóvember. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var um 55% í lok desember.

Atvinnulausum fjölgaði í flestum atvinnugreinum í desember en mest var fjölgunin í byggingariðnaði. Fjöldi atvinnulausra í byggingariðnaði fjölgaði úr 652 í 714 milli mánaða eða um 9,5%.
Í skýrslu Vinnumálastofnunar segir að atvinnulausum hafi fækkað lítillega í lok desember í þremur atvinnugreinum; opinberri þjónustu, farþegaflutningum með flugi og listum.

Atvinnuleysi hækkaði á flestum stöðum á landinu frá nóvember nema á Vestfjörðum og Austurlandi þar sem það stóð í stað.
Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í desember eða 5,6% og hækkaði úr 5,3% frá nóvember. Minnst var atvinnuleysi á Norðurlandi vestra 1,6%, á Austurlandi 2,3% og eins 2,8% á Vestfjörðum.