Í febrúar 2025 voru 12.900 atvinnulausir samkvæmt árstíðaleiðréttum niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands. Á síðu Hagstofunnar segir að 5.800 karlar og 7.100 konur hafi verið atvinnulaus.

Árstíðaleiðrétt hlutfall atvinnulausra var því 5,5% og jókst hlutfallið um 0,6 prósentustig á milli mánaða.

Hlutfall starfandi var 76% og atvinnuþátttaka 80,4%. Árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi dróst saman um 1,4 prósentustig milli mánaða og atvinnuþátttaka dróst jafnframt saman um eitt prósentustig.

„Áætlað er að 30.600 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu sem jafngildir 12,8% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Slaki á vinnumarkaði jókst um 1,2 prósentustig á milli mánaða,“ segir í greiningu.