Atvinnuleysi meðal ungs fólks í Kína hefur aldrei verið eins hátt og það er nú en samkvæmt opinberum tölum jókst atvinnuleysi upp í 21,3% meðal einstaklinga 16-24 ára sem búa í stórborgum.

Hagfræðingar í landinu fylgjast grannt með atvinnumálum þessa stundina en 11.58 milljón nýútskrifaðra háskólanema munu fara inn á kínverska vinnumarkaðinn núna í haust.

Kínverska hagkerfið er það næststærsta í heiminum en seinustu þrjá mánuði fram til lok júní jókst það aðeins um 0,8%.

Qian Wang, aðalhagfræðingur hjá asíska fjárfestingarfyrirtækinu Vanguard, segir vandamálin vera sérstaklega áberandi í smásölu og á fasteignamarkaðnum. „Þetta, ásamt öðrum skýrslum sem við höfum fengið um viðskipti, verðbólgu og lánastöðu, sýnir að vöxtur í Kína er ekki mikill.“

Atvinnuleysi ungs fólks í Kína hefur farið hækkandi undanfarna mánuði og segja yfirvöld að atvinnuleysistölur muni að öllum líkindum halda áfram að hækka fram í ágúst. Megin ástæða er sögð vera ósamræmi milli þeirra áfanga sem háskólanemar tóku og þeirra starfa sem eru í boði.

Dan Wang, hagfræðingur hjá Hang Seng bankanum í Kína, segir ungt fólk á þessum aldri vera aðeins 1,4% af vinnuafli kínverskra stórborga. Í Kína er ekki eins algengt að sjá ungt fólk á vinnumarkaðnum fyrr en það hefur lokið námi og á Vesturlöndunum.

Aftur á móti segir hún að stjórnvöld verði að grípa inn í þar sem ungt fólk lætur yfirleitt meira í sér heyra á samfélagsmiðlum. „Óánægja þeirra á núverandi ástandi gæti haft keðjuverkandi áhrif meðal traust almennings á hagkerfinu í heild sinni,“ segir Dan.

Í síðasta mánuði lækkaði kínverski seðlabankinn stýrivexti í fyrsta skipti í ár í þeirri von um að hvetja til aukinnar neyslu. Sérfræðingar segja hins vegar að stjórnvöld geti gripið til annarra aðgerða til að koma hagkerfinu af stað ef það skyldi ekki virka.