Kóreska líftæknifyrirtækið CellMeat hefur í hyggju að setja upp sína fyrstu framleiðslu utan Kóreu á vistkjöti í Græna iðngarðinum á Suðurnesjum. Giljun Park, stofnandi og forstjóri Cellmeat, og Þór Sigfússon, stjórnarformaður Græna iðngarðsins og Sjávarklasans, undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu þess efnis í Seúl í Kóreu.
„CellMeat hefur náð eftirtektarverðum árangri á sviði framleiðslu á frumuræktuðu rækjukjöti og kavíar úr sjávarafurðum. Fyrirtækið hefur einkaleyfi á aðferð sinni og er í dag með framleiðslugetu sem nemur um 200 tonnum sem auðvelt er að skala upp,“ segir Þór.
Fyrirtækið sótti sem nemur tæpum tveim milljörðum íslenskra króna til uppbyggingar sinnar hjá m.a. bandarískum fjárfestingarsjóðum árið 2023.
Kóreska fyrirtækið bætist nú í hóp innlendra fyrirtækja og fyrirtækja frá Bandaríkjunum, Japan og Noregi sem hafa skrifað undir leigusamning eða viljayfirlýsingu um leigu á aðstöðu í Græna iðngarðinum en byggingar garðsins eru um 30.000 fermetrar.
Óhætt er að segja að atvinnuuppbygging hafi tekið stakkaskiptum á Reykjanesi á fáeinum árum. Fyrir um átta árum var kísilmálmverksmiðju United Silicon lokað og fyrir fimm árum var endanlega ákveðið að hætta við byggingu álvers við Helguvík. Í staðinn fyrir þennan þunga iðnað er Græni iðngarðurinn kominn í húsnæði álversins en auk hans hefur Auðlindagarðurinn verið starfræktur frá árinu 2014.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.