Jónas Fr. Jóns­son, lög­maður inn­flutnings­fyrir­tækisins Dista ehf., segir ljóst að Áfengis- og tóbaks­verslun ríkisins hafi valdið um­bjóðanda sínum tjóni með því að fella vörur hans úr sölu í versluninni á grund­velli ólög­mæts sjónar­miðs um fram­legð.

Í dómi Hæstaréttar í dag segir að ákvörðun ÁTVR að meta verð­leika vara út frá fram­legð frekar en eftir­spurn hafi verið ólög­mæt og í and­stöðu við stjórnar­skrá.

„Dómurinn er mjög skýr enda að mínu mati er málið ekki flókið. Þetta er bara kennslu­bókar­dæmi um at­vinnu­frelsi og lagaáskilnaðar­reglu stjórnar­skrár. Það liggur nú fyrir að ÁTVR og ríkið brutu gegn stjórnar­skrá og lögum,“ segir Jónas Fr. Jóns­son hæstaréttar­lög­maður.

„En ÁTVR hefur ekki bara valdið um­bjóðanda mínum tjóni heldur með því að velja þessa ólög­legu að­ferð að miða við fram­legð, vörusölu­hagnað ÁTVR, þá var stofnunin að ýta dýrari vörum að neyt­endum.“

„ÁTVR þarf nú að breyta reglum sínum til samræmis við lög og síðan er spurning hvernig stofnunin hyggst rétta hlut um­bjóðanda míns“ segir Jónas.

Dista stefndi ÁTVR fyrir dóm í nóvember 2021 og krafðist þess að tvær ákvarðanir stofnunarinnar yrðu felldar úr gildi.

ÁTVR hafði ákveðið að fella bjór­tegundirnar Faxe IPA og Faxe Wit­bier úr vöruúr­vali verslananna og hætta inn­kaupum á þeim þar sem fram­legð þeirra væri of lítil.

Dista taldi það ekki í samræmi við lög og brot á stjórnar­skrá en vísaði einnig til þess að með því að meta verð­leika vara út frá fram­legð frekar en eftir­spurn væri dýrari vörum haldið að neyt­endum.

Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að ÁTVR skuli gæta jafn­ræðis við val á vöru og ákvörðun um sölu og dreifingu áfengis, en ÁTVR er falið að ákveða árangur­sviðmið sölu­flokka og birta á vefs­væði sínu.

Vinsældir vara ráða m.a. hvar þær eru boðnar til sölu og hvar ekki, en mis­munandi vöru­fram­boð er í mis­munandi verslunum.

Í reglu­gerð segir að fram­legð, mis­munur á inn­kaups- og sölu­verði að frá­dregnum virðis­auka­skatti, síðastliðna tólf mánuði skuli ráða for­gangi vöru til dreifingar.

Í dómi Hæstaréttar segir að reglur ÁTVR og ákvörðun ríkis­stofnunarinnar um að láta fram­legð ráða för hafi brotið gegn lagaáskilnaðar­kröfu 1. mgr. 75. gr. stjórnar­skrárinnar um at­vinnu­frelsi.

„Árétta ber að laga­fyrir­mæli sem ætlað er að liggja til grund­vallar skerðingu á at­vinnu­frelsi þurfa að vera skýr og verða ekki túlkuð með rýmri hætti, viðkomandi borgara í óhag, en leitt verður af skýrri orðanna hljóðan eða af­dráttar­lausum vís­bendingum í lögskýringargögnum sé uppi ein­hver vafi um túlkun. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi í máli þessu þar sem vöru­val stefnda grund­vallað á fram­legð, sbr. fyrir­mæli reglu­gerðar […] á sér ekki stoð í þeirri laga­heimild sem liggur reglu­gerðinni til grund­vallar og kann, sam­kvæmt framan­greindu, að stangast á við viðmiðið eftir­spurn sem eitt er nefnt í laga­textanum. Það at­hugast að með þeirri ályktun er engin af­staða tekin til þess hvort fram­legð kunni, eftir at­vikum að breyttum lögum, að vera mál­efna­legur grund­völlur vöru­vals stefnda eða samrýman­leg skuld­bindingum ríkisins sam­kvæmt EES-samningnum,“ segir í dómi hæstaréttar.