Jónas Fr. Jónsson, lögmaður innflutningsfyrirtækisins Dista ehf., segir ljóst að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi valdið umbjóðanda sínum tjóni með því að fella vörur hans úr sölu í versluninni á grundvelli ólögmæts sjónarmiðs um framlegð.
Í dómi Hæstaréttar í dag segir að ákvörðun ÁTVR að meta verðleika vara út frá framlegð frekar en eftirspurn hafi verið ólögmæt og í andstöðu við stjórnarskrá.
„Dómurinn er mjög skýr enda að mínu mati er málið ekki flókið. Þetta er bara kennslubókardæmi um atvinnufrelsi og lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrár. Það liggur nú fyrir að ÁTVR og ríkið brutu gegn stjórnarskrá og lögum,“ segir Jónas Fr. Jónsson hæstaréttarlögmaður.
„En ÁTVR hefur ekki bara valdið umbjóðanda mínum tjóni heldur með því að velja þessa ólöglegu aðferð að miða við framlegð, vörusöluhagnað ÁTVR, þá var stofnunin að ýta dýrari vörum að neytendum.“
„ÁTVR þarf nú að breyta reglum sínum til samræmis við lög og síðan er spurning hvernig stofnunin hyggst rétta hlut umbjóðanda míns“ segir Jónas.
Dista stefndi ÁTVR fyrir dóm í nóvember 2021 og krafðist þess að tvær ákvarðanir stofnunarinnar yrðu felldar úr gildi.
ÁTVR hafði ákveðið að fella bjórtegundirnar Faxe IPA og Faxe Witbier úr vöruúrvali verslananna og hætta innkaupum á þeim þar sem framlegð þeirra væri of lítil.
Dista taldi það ekki í samræmi við lög og brot á stjórnarskrá en vísaði einnig til þess að með því að meta verðleika vara út frá framlegð frekar en eftirspurn væri dýrari vörum haldið að neytendum.
Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að ÁTVR skuli gæta jafnræðis við val á vöru og ákvörðun um sölu og dreifingu áfengis, en ÁTVR er falið að ákveða árangursviðmið söluflokka og birta á vefsvæði sínu.
Vinsældir vara ráða m.a. hvar þær eru boðnar til sölu og hvar ekki, en mismunandi vöruframboð er í mismunandi verslunum.
Í reglugerð segir að framlegð, mismunur á innkaups- og söluverði að frádregnum virðisaukaskatti, síðastliðna tólf mánuði skuli ráða forgangi vöru til dreifingar.
Í dómi Hæstaréttar segir að reglur ÁTVR og ákvörðun ríkisstofnunarinnar um að láta framlegð ráða för hafi brotið gegn lagaáskilnaðarkröfu 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.
„Árétta ber að lagafyrirmæli sem ætlað er að liggja til grundvallar skerðingu á atvinnufrelsi þurfa að vera skýr og verða ekki túlkuð með rýmri hætti, viðkomandi borgara í óhag, en leitt verður af skýrri orðanna hljóðan eða afdráttarlausum vísbendingum í lögskýringargögnum sé uppi einhver vafi um túlkun. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi í máli þessu þar sem vöruval stefnda grundvallað á framlegð, sbr. fyrirmæli reglugerðar […] á sér ekki stoð í þeirri lagaheimild sem liggur reglugerðinni til grundvallar og kann, samkvæmt framangreindu, að stangast á við viðmiðið eftirspurn sem eitt er nefnt í lagatextanum. Það athugast að með þeirri ályktun er engin afstaða tekin til þess hvort framlegð kunni, eftir atvikum að breyttum lögum, að vera málefnalegur grundvöllur vöruvals stefnda eða samrýmanleg skuldbindingum ríkisins samkvæmt EES-samningnum,“ segir í dómi hæstaréttar.