Fjölskyldulíf Kanye West kann að vera í rústum en fjárhagur hans er á uppleið“. Svo hefst frétt New York Post um auðæfi rapparans og forsetaframbjóðandans Kanye West sem eru talin hljóða upp á 6,6 milljarða dala eða um 840 milljarða íslenskra króna.
Virði Yeezy samstarfs hans með Adidas er metið á allt að 3,7 milljarða dala samkvæmt mati fjárfestingabankans UBS. Sala á Yeezy Adidas skónum jókst um 31% á síðasta ári og nam nærri 1,7 milljörðum dala. Nýjasta útgáfan Yeezy 450 seldist upp á innan við mínútu fyrr í mánuðinum.
Að sama skapi er áætlað að virði væntanlegu fatalínu hans fyrir Gap sé rúmlega einn milljarður dala. Á síðasta ári skrifaði West undir tíu ára samning um að hanna og selja föt undir merkinu Yeezy Gap. Sú fatalína nær þó ekki til skófatnaðar en samstarf West með Adidas nær til ársins 2026. West á allan hlut í bæði Yeezy og Gap framtakinu, samkvæmt heimildum NY Post.
Ekki má gleyma hlut West í Skims undirfatalínu hans og Kim Kardashian sem er metinn á 1,7 milljarða dala. Tónlistarsafn West er metið á 110 milljónir dala og talið er að hann eigi reiðufé og hlutafé að andvirði 122 milljóna dala, samkvæmt Bloomberg .
Það hefur því orðið mikill viðsnúningur á auðæfum West sem sagði árið 2015 við BET að hann væri skuldugur um 15 milljónir dala eftir fyrstu skref sín í tískuheiminum. Ári síðar sagðist hann skulda 53 milljónir dala og bað þá Mark Zuckerberg, stofnanda og forstjóra Facebook, að fjárfesta einum milljarði dala í „hugmyndir“ hans, að því er kemur fram í frétt Reuters .
„Heimur, vinsamlegst tístiði, notið FaceTime, Facebook, instagram, eða hvað sem er til að fá Mark til að styðja mig,“ skrifaði Kanye West í Twitter færslu árið 2016 sem var síðar eytt.