Breski auðjöfurinn og tæknifrumkvöðullinn Mike Lynch, sem hefur áður fyrr verið kallaður Bill Gates Bretlands, er meðal þeirra sem er saknað eftir að snekkja sökk skyndilega austur af sikileysku höfuðborginni Palermo um helgina.

Stormur hafði gengið yfir svæðið og olli meðal annars nokkru tjóni á Sikiley auk þess að sökkva snekkjunni þar sem hún lá við akkeri.

Viðskiptablaðið hefur áður skrifað um Lynch en hann þurfti til að mynda að mæta fyrir dómstól í Bandaríkjunum í mars á þessu ári þar sem hann átti yfir höfði sér 25 ára fangelsi. Hann var sakaður um að hafa ofmetið verðmæti hugbúnaðarfyrirtækis síns þegar hann seldi það til Hewlett-Packard árið 2011.

Fyrirtækið hans, Autonomy, var á sínum tíma selt til HP fyrir 11 milljarða dala og var það stærsta yfirtaka bresks tæknifyrirtækis frá upphafi.

Ári seinna mat HP hins vegar verðmæti Autonomy um 8,8 milljarða dala og fullyrti að Lynch hafi blekkt þá til að ofgreiða fyrir fyrirtækið. Lögfræðingur Lynch sagði að hannhafi einbeitt sér frekar að tæknilegu hliðum fyrirtækisins frekar en fjármálum. Hann var svo sýknaður.

Lynch fæddist 16. júní 1965 og er sonur hjúkrunarfræðings og slökkviliðsmanns. Hann ólst upp nálægt Chelmsford í Essex og stundaði nauð í náttúruvísindum við háskólann í Cambridge, þar sem hann lauk doktorsprófi í stærðfræðilegri tölvunarfræði.

Hann sat einnig í stjórn BBC og árið 2011 var hann skipaður í vísinda- og tækniráð ríkisstjórnarinnar þar sem hann starfaði sem ráðgjafi um ógnir gervigreindar til þáverandi forsætisráðherra, David Cameron.