Í skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og birt var í mars síðastliðnum kemur fram að samkvæmt uppfærðri sviðsmynd Samorku vegna breyttra loftslagsmarkmiða sé þörf fyrir tæplega 24 TWst af orku fram til ársins 2040, sem þýðir meira en tvöföldun á núverandi orkuframleiðslu.

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri á sviði framkvæmda hjá Landsvirkjun, segist þegar finna fyrir mikilli eftirspurn frá núverandi viðskiptavinum fyrirtækisins og ljóst sé að ráðast þurfi í miklar framkvæmdir til að mæta þeirri orkuþörf sem hafi skapast.

„Það er feikinóg eftirspurn og við erum að kanna í öllum hornum hjá okkur hvar við getum mætt þessari eftirspurn," segir Ásbjörg, sem bendir á að til viðbótar við þær virkjanir sem eru í undirbúningi, svo sem Hvammsvirkjun og vindlundir í Búrfelli og Blöndu liggi mikil auðlind í þeim stöðvum sem nú þegar eru í rekstri.

„Þessi framsýni sem var til staðar fyrir áratugum síðan við hönnun stöðvanna er að skila sér í dag og við getum þakkað fyrir það. Þá var reynt að mæta þörfum framtíðarinnar og við munum nýta okkur það í mörgum okkar stöðva." Á Þjórsársvæði sé til að mynda búið að greina stækkunar- og aflaukningartækifæri sem gætu aukið uppsett afl um allt að 250 MW. Þannig myndi rafmagnsframleiðslan aukast um allt að 140 GWst á ári. Ólíkt stækkunarverkefnum þurfa aflaukningarverkefni ekki að vera á rammaáætlun og eru þau einungis tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar.

Ýmsar leiðir til aflaukningar

Ásbjörg segir ýmsar mismunandi leiðir til staðar til að auka við aflgetu. Til að mynda sé í mörgum af eldri stöðvum Landsvirkjunar rými til að auka afl með uppfærslu í vélbúnaði.

„Aðrar nýrri stöðvar hafa sumar verið hannaðar frá grunni með það í huga að geta tekið við auknu rennsli þegar vatnsmagn frá jöklum yfir í jökulárnar myndi halda áfram að aukast með hlýnun jarðar," segir Ásbjörg. Nefnir hún sem dæmi Búrfellsstöð 2, sem gangsett var árið 2018, en þar voru mannvirkin byggð stærri en nauðsynlegt var fyrir framleiðslugetu stöðvarinnar í dag, þar sem gert er ráð fyrir að innan skamms verði svigrúm til að bæta við nýrri vél vegna aukningar í rennsli árinnar.

„Ef við gerum það ekki mun vatnið fara framhjá stöðinni ónýtt og við hjá Landsvirkjun teljum það því ábyrgt að nýta auðlindina á eins arðbæran hátt og hægt er. Við sjáum aukið rennsli með hverju árinu í stöðvum sem stóla á jökulrennsli og sagt hefur verið að það muni halda áfram að aukast á næstu 50 árum. Er það hagur okkar sem þjóðar að nýta þessa vatnsdropa sem eru hvort eð er á leið sinni til sjávar? Hví ekki, í ljósi þess að við erum með háleit markmið og mikinn vilja til að mæta orkuskiptum til að mæta þessari loftslagsvá sem hvílir yfir okkur."

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .