Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, tók nýlega við sem stjórnarformaður Samorku. Hún kveðst full eldmóðs að takast á við þau fjölmörgu tækifæri og áskoranir sem fram undan séu í orku- og veitumálum. Meðal þessara áskorana er verndun vatnsbóla en eins og Sólrún bendir á er það einstakt á heimsvísu að höfuðborgarsvæðið hafi aðgang að hreinu drykkjarvatni sem lítið eða ekkert þarf að meðhöndla.

„Við erum svo heppin að búa að vatnsbólunum okkar í Heiðmörk en nær allt höfuðborgarsvæðið fær drykkjarvatn sitt þaðan. Eitt allra mikilvægasta hlutverk Veitna er að vernda hreina neysluvatnið. Ógnir við vatnsbólin eru ýmsar og má þar nefna mengun og jarðhræringar en líka skipulag byggðar nálægt vatnsbólum í kjölfar mikillar fólksfjölgunar undanfarin ár. Helsta ógnin við vatnsbólin eru bílar á grannsvæði vatnsverndar. Ekki þarf nema eitt slys á versta stað til að mynda áhættu. Við viljum ekki lengur treysta á heppni og þurfum því að færa aðgerðir okkar úr viðbragði yfir í forvarnir.“

Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarið stendur Reykjavíkurborg í deiliskipulagsvinnu um skipulag Heiðmerkur og hafa Veitur haft aðkomu að skipulagsferlinu. Sólrún segir Veitur leggja áherslu á að bílaumferð verði takmörkuð á viðkvæmustu svæðunum í samræmi við gildandi reglur um vatnsvernd á svæðinu.

„Lokatakmarkið er að færa bílastæði í útjaðar grannsvæðis til að draga úr áhættu fyrir vatnsbólin okkar. Þetta yrði gert í markvissum skrefum innan eðlilegs tímaramma. Engum vegum yrði lokað fyrr en búið er að tryggja gott aðgengi til áframhaldandi útivistar. Við viljum sannarlega að Heiðmörkin verði áfram útivistarparadís og viljum bæta aðgengi, áningastaði og aðstöðu fyrir útvistafólk í Heiðmörk í samvinnu við sveitarfélögin og almenning.“

Vinna að því að spara pláss í kerfunum

Á veitusvæði fráveitu Veitna eru um 60% heimila landsins en líkt og Sólrún bendir á að ofan hefur landsmönnum fjölgað hratt undanfarin ár. Spurð um hvort núverandi fráveitukerfi séu hönnuð fyrir álagið sem er á þeim í dag segir Sólrún að svo sé. Fráveitukerfin geti tekið á móti álaginu sem er á því í dag og um langa framtíð. „Það sem við erum að laga í dag er að passa upp á að í gegnum fráveitulagnir renni ekki of mikið af óþarfa. Með því á ég við að um 60-70% af því sem fer um fráveitukerfið er annars vegar bakvatn og hins vegar ofanvatn. Bakvatn er hitaveituvatn sem hefur verið notað og ofanvatn er regnvatn sem fer ofan í skólpkerfið okkar.“

Unnið sé að því hjá Veitum að spara pláss í kerfunum fyrir óþarfa vatn fremur en að stækka kerfið sjálft. „Þarna eru mikil sóknarfæri og við erum að vinna að því með sveitarfélögunum sem við þjónustum að skýra og skerpa á því hvernig við losum regnvatnið með blágrænum lausnum og erum sífellt að minnka hlutfall bakvatns í kerfinu. Með því að minnka þetta hlutfall á ári hverju náum við að skapa rými í kerfinu, ekki bara fyrir fólksfjölgun á starfssvæði Veitna heldur einnig fyrir auknar kröfur í fráveitu sem krafist er af okkur.“

Mjög mikilvægt sé að Veitur sýni ábyrgð í rekstri fráveitukerfisins. Einkum vegna þess að það stuðli að sjálfbærni í hafinu en einnig þar sem að sjávarútvegur hafi verið ein af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar um langt skeið. „Þess vegna verður hafið í kringum landið að vera hreint og ómengað af örplasti, lyfjaleifum og öðrum afleiðingum af mannlegum athöfnum.“

Tæknin nýtt til fulls

Sólrún segir tæknilausnir geta bætt skilvirkni fráveitukerfa og þannig komið í veg fyrir kostnaðarsamar endurbætur á kerfunum. „Við erum að setja upp mæla sem munu gefa okkur mun skýrari mynd af því hvaða magntölur við erum að tala um en líka innihaldsefni. Það sem við sjáum einnig eru tækifærin í fráveitukerfunum. Við erum komin á fullt með verkefni sem gætu skapað tækifæri og tekjur úr fráveitunni í tengslum við sand og fitu sem safnast upp í fráveitunni. Við lítum á fráveituna sem auðlind sem megi nýta mun betur en gert er í dag.

Fitan geti t.d. nýst til ýmissa nota og sandurinn sömuleiðis og öðlast þannig nýtt líf og skapað virði fyrir samfélagið. „Tæknilausnir eru eitt en nýskapandi hugsun er stundum annað. Þetta er dæmi um það.“

Hvað endurbætur og viðhald á kerfunum varðar séu Veitur að fóðra lagnir frekar en að skipta þeim út þegar það er mögulegt. „Með fóðrun lagna erum við að setja aukalag af fóðrun innan frá og aukum þannig líftíma lagnanna. Það eru miklar tækniframfarir á þessu sviði sem öðrum og við sjáum það að ef við getum fóðrað lagnir og sleppt því að grafa í sundur umferðargötur eða borgarland, er það samfélagslega ábyrgt.“

Halda „Nýsköpunarfestival“ í júní

Eins og Sólrún hefur minnst á leggja Veitur áherslu á nýskapandi hugsun í störfum sínum. Til marks um það er nýsköpun einn af kjörnum í stefnu félagsins. „Við erum einmitt að halda fyrsta „Nýsköpunarfestival“ Veitna í júní. Þar mun fjölbreyttur hópur leysa stórar áskoranir. Einn spretturinn mun snúast um „fitulausa fráveitu“ og ég er mjög spennt að sjá útkomuna úr því og öðrum sprettum á viðburðinum sem við köllum: „Tengjum 2025.“

Greinin birtist í sérblaðinu Samorkuþing 2025.