Fleiri en 30 af ríkustu einstaklingum Noregs hafa flutt lögheimili sitt til Sviss og annarra landa með hagstæðari skattalögum, þar á meðal útgerðarmaðurinn Kjell Inge Røkke sem var um tíma ríkasti maður Noregs. Flutningana má einkum rekja til 1,1% auðlegðarskatts en miklar áhyggjur eru uppi um neikvæðar afleiðingar hans á norskt atvinnulíf, að því er kemur fram í umfjöllun Financial Times.
Þjóðskráin í Noregi sýnir að í það minnsta 30 milljarðamæringar hafi flutt lögheimili sitt til Sviss í ár. Aðrir hafa flutt til landa á borð við Kýpur, Ítalíu og Kanada. Flóttinn í ár er meiri en á síðustu þrettán árum til samans, samkvæmt úttekt Dagens Naeringsliv.
Samanlögð auðæfi þessa hóps nemur um 29 milljörðum norskra króna eða um 415 milljörðum íslenskra króna. Þeir greiddu samtals um 550 milljónir norskra króna, eða um 7,9 milljarða íslenskra króna, í skatta í ár samkvæmt skattskýrslum.
Noregur er eitt af fáum Evrópulöndum sem er enn með auðlegðarskatt en hann nemur 1,1% á eignir yfir 1,7 milljónir norskar krónur eða yfir 24 milljónir íslenskra króna. Frakkar afnumdu slíkan skatt árið 2018 og tóku í staðinn upp fasteignaskatt. Sviss er einnig með auðlegðarskatt en býður upp á undanþágur fyrir erlenda aðila.
„Þetta skekkir norskt viðskiptaumhverfi á ótal vegu,“ er haft eftir Mathilde Fasting, skattasérfræðingi hjá hugveitunni Civita. „Þetta neyðir eigendur til þess að biðja fyrirtækin sín um arðgreiðslur, sem eru oft umfram hagnað fyrirtækjanna. Jafnframt dregur þetta verulega úr hvatanum til þess að fjárfesta í fyrirtækjunum.“
Val um að taka pening úr fyrirtækinu eða flytja
Fleiri auðugir einstaklingar munu að líkindum flytja frá Noregi á næstunni vegna breytinga á skattalögum sem þeir telja að dragi úr samkeppnishæfni Noregs. Einn af þeim sem hefur áhyggjur af þróuninni er hinn 31 árs gamli Fredrik Haga, meðstofnandi Dune, gagnafyrirtækis á sviði rafmynta sem metið er á yfir einn milljarð dala. Hann mun um helgina ganga formlega frá flutningum til Zug í Sviss.
„Ég varð að velja: Vil ég vera búsettur í Noregi eða vil ég að þetta fyrirtæki nái árangri? Þetta snýst ekki um að vilja ekki greiða skatta. Þetta snýst um að þurfa að greiða skatta á pening sem ég á ekki,“ segir Haga við FT.
Hann vísar til þess að auður hans er að mestu leyti bundinn í hraðvaxta fyrirtækinu sem er enn í taprekstri. Dune geti því ekki greitt út arð og hann vill síður selja hlut í fyrirtækinu. „Ég þarfa annað hvort að taka fjármagn út úr fyrirtækinu eða flytja,“ segir Haga sem óttaðist að næsti skattareikningur yrði margfalt meiri en ráðstöfunartekjur hans.
Flóttaskattur í pípunum
Miðju-vinstri stjórn, sem Jonas Gahr Støre forsætisráðherra leiðir, hefur hækkað auðlegðarskattinn í ár ásamt því að auka álögur á arðgreiðslur og draga úr frádrætti fyrirtækjaeigna vegna auðlegðarskattsins.
Fasting segir að auðlegðarskattur á eign í fyrirtækjum hafi sennilega tvöfaldast í ár samanborið við árið 2021 og að skattur á arðgreiðslur hafi aukist um nærri 50%. Þá horfi stjórnvöld til þess að taka upp „flóttaskatt“ til að aftra auðugum einstaklingum að flýja með eignir sínar.
Fasting segir að hafi hingað til aldrei verið talin mikil stjórnmálaleg áhætta í Noregi en nú hugsi margir að núverandi ríkisstjórn eigi verði enn við völd næstu árin og ástandið gæti hæglega versnað enn frekar.
Erlend Grimstad, pólitískur ráðuneytisstjóri í norska fjármálaráðuneytinu, segir að þó ríkisstjórnin vilji að einstaklingar og fyrirtæki geti þrifist í Noregi þá þurfi fjármagn frá auðugum einstaklingum til að standa undir velferðarkerfinu. Hann bætti við að enn séu nokkur þúsund milljónamæringa í Noregi og að þeir séu fleiri á höfðatölu en í mörgum ríkum löndum.