Forbes birti í morgun hinn árlega auðmannalista sem viðskiptamiðilinn er hvað þekktastur fyrir. Að þessu sinni nær listinn yfir 2.781 einstaklinga sem eru metnir á einn milljarð dala eða meira. Auðæfi þeirra eru samtals metin á 14,2 þúsund milljarða dala.

Björgólfur Thor Björgólfsson er annað árið í röð eini Íslendingurinn á auðmannalista Forbes. Auðæfi hans eru metin á 2,1 milljarð dala, eða um 293 milljarða króna á gengi dagsins.

Til samanburðar var auður hans metinn á 2,5 milljarða dala á sama tíma í fyrra. Forbes áætlar því að auðæfi hans hafi dregist saman um ríflega 400 milljónir dala milli ára eða um tæplega 55 milljarða króna milli ára.

Björgólfur Thor féll því um meira en 300 sæti yfir ríkasta fólk heims milli ára, eða 1.217 sæti í 1.545 sæti Forbes-listans.

Meðal helstu eigna Björgólfs Thors í gegnum fjárfestingarfélögin sín í dag eru fjarskiptafyrirtækið WOM ásamt eignarhlutir í sprota- og tæknifyrirtækjum á borð við Zwift, Deliveroo, Stripe, Monzoo og Klang Games.

Í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið er fjallað ítarlega um fjárhagsvandræði WOM.

Þá fjallaði Viðskiptablaðið ítarlega í haust um fjárfestingu NaMa Capital, áður Novator Capital, í bandaríska húsnæðislánafyrirtækisinu Better Mortgage í gegnum SPAC-félagið Aurora sem Björgólfur Thor fór fyrir. Hlutabréfaverð Better lækkaði um 93% á fyrsta degi viðskipta á bandaríska hlutabréfamarkaðnum í ágúst síðastliðnum og hefur ekki enn rétt úr kútnum.