Auður, fjármálaþjónusta Kviku banka fyrir sparnaðarreikninga, haslar sér nú völl á fyrirtækjamarkaði og opnar í dag nýja þjónustu, fyrirtækjareikninga sem bjóða hæstu vextina í samanburði við sambærilega reikninga í öðrum bönkum, að því er segir í fréttatilkynningu.

„Auður hefur frá upphafi boðið einstaklingum uppá einfalda sparnaðarreikninga á netinu með hæstu mögulegu vöxtum án binditíma. Sparnaðarreikningar Auðar, sem hafa notið mikilla vinsælda, hafa hingað til einungis staðið einstaklingum til boða en nú er komið að fyrirtækjum.“

Auður, fjármálaþjónusta Kviku banka fyrir sparnaðarreikninga, haslar sér nú völl á fyrirtækjamarkaði og opnar í dag nýja þjónustu, fyrirtækjareikninga sem bjóða hæstu vextina í samanburði við sambærilega reikninga í öðrum bönkum, að því er segir í fréttatilkynningu.

„Auður hefur frá upphafi boðið einstaklingum uppá einfalda sparnaðarreikninga á netinu með hæstu mögulegu vöxtum án binditíma. Sparnaðarreikningar Auðar, sem hafa notið mikilla vinsælda, hafa hingað til einungis staðið einstaklingum til boða en nú er komið að fyrirtækjum.“

8% vextir óháð innlánsupphæð

Auður býður fyrirtækjum nú 8% vexti óháð innlánsupphæð á óbundnum og óverðtryggðum sparnaðarreikningum. Það eru hæstu vextir á sambærilegum reikningum sem eru í boði á markaðnum í dag fyrir fyrirtæki. Reikningarnir bera hvorki stofngjald né færslugjöld.

Kvika banki hefur starfrækt Auði í fimm ár. Viðskiptavinir Auðar meðal einstaklinga eru nú yfir 49.000 og staða innlána rauf 100 milljarða króna múrinn síðastliðið vor.

Auður veitir þjónustu einungis á netinu en með því horfir Kvika til þess að halda kostnaði í lágmarki og skapa þannig svigrúm til að bjóða upp á betri innlánskjör.

„Með tilkomu Auðar á sínum tíma breytti Kvika markaðnum fyrir sparnaðarreikninga einstaklinga og bauð allt að tvöfalt betri vexti en þekktust. Kvika jók þannig samkeppni á þessum markaði sem hafði áhrif á kjör innlána hjá öðrum bönkum til verulegra hagsbóta fyrir alla neytendur. Í dag eru einstaklingsviðskiptavinir Auðar orðnir rúmlega 49 þúsund talsins,“ segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.

„Nú er komið að því að útvíkka þjónustu Auðar til fyrirtækja og bjóða þeim betri kjör á sparnaðarreikningum en aðrir bjóða. Þjónustan stendur öllum til boða og hentar ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem vilja fá bestu vextina á óbundnum innlánsreikningum óháð upphæð. Við höfum frá upphafi Auðar lagt áherslu á að bjóða uppá einfalda og trausta sparnaðarþjónustu með litla yfirbyggingu, sem hefur leitt af sér betri kjör fyrir viðskiptavini. Við bindum því vonir við að fyrirtæki taki þessari nýjung vel.“

Aukið vaxtatekjur almennings um tugi milljarða

Kvika segir það til marks um áhrif Auðar á samkeppni á íslenskum innlánamarkaði að munurinn á innlánavöxtum og stýrivöxtum Seðlabankans hafi minnkað „svo um munar“ eftir að bankinn hóf að bjóða uppá þjónustu Auðar og taka við innlánum á vormánuðum 2019.

„Uppsafnaður ábati almennings af hærri innlánsvöxtum vegna aukinnar samkeppni er áætlaður um 30 milljarðar króna frá stofnun Auðar.“