Seðla­banki Ís­lands spáir nær engum hag­vexti í ár sam­hliða því að stjórnar­myndar­viðræður til vinstri séu langt á veg komnar. Ríkis­fjár­málin hafa verið fyrir­ferðar­mest í viðræðunum sam­kvæmt for­mönnum flokkanna þriggja enda er gert ráð fyrir halla af rekstri ríkis­sjóðs til ársins 2028.

Kristrún Frosta­dóttir, for­maður Sam­fylkingarinnar, og Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Viðreisnar, sögðu báðar nýverið að ríkis­stjórnin væri að skila verra búi af sér en talið var upp­haf­lega eftir til­kynningu fjár­málaráðu­neytisins um að heildar­af­koma ríkis­sjóðs yrði neikvæð um 1,2 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu á næsta ári.

Rétt er að taka fram að sam­kvæmt ráðu­neytinu var þetta þó nær einungis vegna lakari efna­hags­horfa sem skilar sér í minni tekjuöflun en ekki vegna að­gerða á út­gjalda­hliðinni hjá fráfarandi ríkis­stjórn.

Í nýaf­stöðnum alþingis­kosningum var mikið talað um efna­hags­legan stöðug­leika og jafn­vægi í ríkis­fjár­málunum en þeir flokkar sem standa nú í stjórnar­myndunar­viðræðum töluðu þó afar lítið um hvernig ætti að auka verðmæta­sköpun og lands­fram­leiðslu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, rifjaði þó nýverið upp mögulega lausn í þessum efnum er hún vitnaði í skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar, fyrrverandi þingmanns Samfylkingar og hagfræðings, um framlag menningar og listar til landsframleiðslunnar.

Í skýrslunni, sem Ágúst vann fyrir Lilju Alfreðsdóttur, fráfarandi menningar- og viðskiptaráðherra, segir meðal annars að „beint framlag menningar og skapandi greina nam 3,5% af landsframleiðslu, eða um 150 milljörðum kr., árið 2022, sem er litlu minna en framlag sjávarútvegs“.

Ágúst gengur enn lengra og segir að „opinber fjárfesting einnar krónu í menningu og skapandi greinum verður að þremur krónum í hagkerfinu“.

„Ég er ekki viss um að slík ávöxtun bjóðist víða,” skrifaði Þórunn í Morgunblaðinu í síðustu viku. Hægt er að taka undir síðustu orð Þórunnar um að þessi ávöxtun sem birtist í skýrslunni sé ótrúleg en það er líklegast vegna þess að talnaleikfimi skýrsluhöfundar gengur ekki upp.

Það verður að teljast verulegt áhyggjuefni að þingmaður og fráfarandi ráðherra haldi svona villu á lofti og telji þetta leiðina til að auka landsframleiðslu, sér í lagi nú þegar hagkerfið er að kólna hratt.

Skrif Ágústs eru ekki ný af nálinni en umrædd skýrsla dregur mjög dám af ritverkum Ágústs Einarssonar prófessors um hagræn áhrif kvikmynda, tónlistar og ritlistar sem Háskólinn á Bifröst gaf út árin 2011, 2012 og 2015.

Það eru hins vegar nýmæli að þingmenn og ráðherrar taki svona hlutum trúandi. Einn stærsti þverbrestur í skýrslunni er að Ágúst ber saman skattlagða atvinnuvegi við atvinnuveg sem nýtur styrkja frá skattgreiðendum.

Atvinnuvegir sem eru styrktir og hefðu kannski ekki verið í rekstri án styrks munu lækka landsframleiðsluna þó að þeir mælist með jákvæðan virðisauka. Það er margt sem orkar tvímælis í skýrslunni en fjölmiðlar, alla helst Ríkisútvarpið, fjölluðu um niðurstöður hennar án nokkurrar gagnrýni.

Ágúst mætti meðal annars í viðtal á Rás 1 og sagði menningu og skapandi greinar „einfaldlega risa í landsframleiðslunni” samhliða því að hann hvatti til frekari ríkisútgjalda í málaflokkinn. Mikilvægi menningar- og skapandi greina fyrir samfélagið er óumdeilt en það orkar hins vegar tvímælis þegar stjórnmálamenn, hagfræðingar og ráðherra halda því fram að ríkisstyrktur atvinnuvegur skili jafn miklu til landsframleiðslunnar og  sjávarútvegurinn sem er skattlagður upp í topp.

Það liggur fyrir að menning og skapandi greinar njóta ríflegra opinberra styrkja hérlendis. Samkvæmt skýrslunni er Ísland í fyrsta sæti Evrópulanda hvað þessa styrki snertir og veitir 50% hærra hlutfall af landsframleiðslu til menningar-og skapandi greina en að meðaltali í ESB og EFTA.

Það verður að spyrja sig, er rétt að þjóðin verður ríkari með því að styrkja enn frekar þennan atvinnuveg, sem ekki getur staðið á eigin fótum? Og hvers vegna hafa hinar Evrópuþjóðirnar ekki komið auga á þessa snjöllu leið til hagvaxtar?

Í skýrslunni er meðal annars haldið því fram að þar sem menning og skapandi greinar mælast með tiltölulega hátt hlutfall af vergri landsframleiðslu í þjóðhagsreikningum sé þjóðhagslega hagkvæmt að styrkja þessar greinar enn frekar. Hér er litið fram hjá því að í hagkerfinu eru aðrar atvinnugreinar sem einnig framleiða verðmæti. Á hverjum tíma er visst magn framleiðsluþátta til í hagkerfinu.

Verg landsframleiðsla er hámörkuð með því að ráðstafa þeim til þeirra atvinnuvega sem arðbærastir eru hverju sinni. Þeir atvinnuvegir sem þurfa á opinberum stuðningi að halda (sem verður ekki fjármagnaður nema með álögum á aðra atvinnuvegi) geta ekki verið í hópi arðbærustu atvinnuveganna.

Því mun efling útgjalda til menningar- og skapandi greina með enn ríflegri opinberum styrkjum eins og Ágúst leggur til lækka verga landsframleiðslu eins og hún er mæld en ekki auka hana. Það er ekki góðs viti fyrir þjóðina ef sú staðreyndarvilla er tekin sem sannleikur meðal þingmanna stjórnarflokkanna að með því að auka útgjöld í ríkisstyrktar greinar sé hægt að auka landsframleiðsluna.

Þau fyrirtæki sem skapa raunveruleg verðmæti og leggja til landsframleiðslunnar eru skattlögð með sérstökum sköttum eins og fjármálafyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki. Þetta dregur bæði úr samkeppnishæfni Íslands og landsframleiðslu.

Í raunveruleikanum er auðveldasta leiðin til að auka landsframleiðsluna að létta undir með fyrirtækjum sem framleiða verðmæti og búa til útflutningstekjur.

Formenn tilvonandi stjórnarflokka gætu andað léttar yfir „verra búi“ vegna minni landsframleiðslu ef það yrði gert. Það er þó fátt sem bendir til þess liðkað verði til um sértæka skatta á helstu útflutningsgreinum þjóðarinnar.

Myndi ótvírætt minnka landsframleiðslu

Til að útskýra villuna í skýrslu Ágústs með einföldum hætti má ímynda sér hagkerfi með einum framleiðsluþætti, vinnuafli, og tveimur atvinnuvegum A og B. Gerum í upphafi ráð fyrir að vinnuafl sé fast og táknum það með L.

Gerum jafnframt ráð fyrir að atvinnuvegur A sé framleiðnari en atvinnuvegur B þannig að hver vinnuaflseining í A framleiði tvær verðmætiseiningar en aðeins eina í atvinnuvegi B. Nú er unnt að verja framleiðsluþættinum L í atvinnuvegi A og B í hlutfallinu a og (1-a), þar sem a er á bilinu (0,1).

Ef a=0 er öllu vinnuaflinu ráðstafað í atvinnuvegi A. Ef a=1 er öllu vinnuaflinu ráðstafað í atvinnuveg B. Miðað við þetta er heildarframleiðslan, þ.e.a.s. verg landsframleiðsla (VLF): VLF=(1-a)×2×L+a L=2×L -a×L. Af þessari líkingu er augljóst að til þess að hámarka VLF verður a=0, þ.e. engu vinnuafli er ráðstafað í óframleiðnari atvinnuveginn.

Líkingin sýnir jafnframt að VLF verður þeim mun minni sem meira vinnuafli er ráðstafað til atvinnuvegar B og lágmörkuð ef hann fær allt vinnuaflið. Ef t.d. L=10 myndi VLF vera 20 ef öllu vinnuaflinu er ráðstafað í atvinnuveg A en aðeins 10 ef því er öllu ráðstafað til atvinnuvegs B.

Þetta dæmi þótt einfalt sé nær fyllilega utan um aðalatriði málsins sem er hvort það geti aukið landsframleiðsluna að beina framleiðsluþáttum hagkerfisins frá tiltölulega framleiðnum atvinnuvegum til þeirra sem eru óframleiðnir.

Niðurstaðan er ótvírætt að slíkt muni minnka landsframleiðslu en ekki auka hana. Engu að síður er nákvæmlega þetta tillagan sem sett er fram í skýrslunni og hefur verið flaggað án athugasemda af stjórnmálamönnum, ráðherrum og ríkisútvarpi allra landsmanna.