Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Víetnam fyrir helgi til að leggja áherslu á hugtakið „vinastuðningur“ sem stuðlar að því að vinaþjóðir ættu að reiða sig meira á hvort aðra frekar en á Kína.

Hugmyndin virðist hafa verið að skila árangri en á síðustu fimm árum hafa viðskipti milli Bandaríkjanna og Víetnam farið frá 60 milljörðum dala árið 2018 og upp í 140 milljarða dala.

Í heimsókn sinni hrósaði Yellen ítrekað auknum samskiptum milli ríkjanna með Pham Minh Chin, forsætisráðherra Víetnam, og öðrum meðlimum kommúnistaflokksins. „Við sjáum mikla möguleika í framtíðinni með að styrkja þessi tengsl.“

Fyrr í þessum mánuði ferðaðist fjármálaráðherrann einnig til Kína þar sem hún benti þarlendum embættismönnum á að það væri markmið bandarísku ríkisstjórnarinnar að reiða sig minn á Kína í ákveðnum lykilgeirum án þess að skaða viðskiptasamband ríkjanna.

Sú ákvörðun gæti hins vegar verið erfið fyrir bandarísk stjórnvöld þar sem „vinaþjóðir“ Bandaríkjanna í Asíu eins og Víetnam og Suður-Kórea eru enn mjög háð kínverskri starfsemi. Kínverjar hafa mikla yfirburði þegar kemur að orkuskiptum og er bandaríska ríkisstjórnin því mjög hikandi við að þrýsta á fyrirtæki til að skilja við Kína.

Víetnam er orðinn mikilvægur framleiðandi á sólaraflhlöðum fyrir Bandaríkin en framleiðslan sjálf reiðir sig mjög mikið á kínverskar ábyrgðarkeðjur. Kínversk fyrirtæki hafa einnig náð að sniðganga tolla með því að flytja sínar eigin vörur í gegnum Víetnam og önnur ríki í Suðaustur-Asíu.

Í Hanoi, höfuðborg Víetnam, heimsótti Yellen meðal annars rafmótorhjólaverksmiðju Selex Motors. Það fyrirtæki notast við kínverska birgja fyrir bæði rafmótora sína og höggdeyfa en 80% íhluta fást hins vegar í Víetnam.

Bandaríkin hafa hvatt „vinaþjóðir“ sínar, bæði í Asíu og Evrópu, að reiða sig minna á Kína en ríkisstjórnin hefur viðurkennt að sú áætlun gæti reynst flókin. Það hefur líka gengið erfiðlega að finna jafnvægi milli þess að stunda milliríkjaviðskipti og vernda þjóðarhagsmuni.

Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóri efnahagsmála hjá Evrópusambandinu, segir einnig að það þurfi að finna leið til að stunda viðskipti við Kína en á sama tíma tryggja þess að áfangakeðjur lendi ekki í pólitískri ádeilu. „Þetta er auðvelt í orðum, en ekki í framkvæmd.“