Samtök atvinnulífsins (SA) segja með öllu óásættanlegt að stjórnvöld leggi til kerfi sem samkvæmt skilgreiningu felur í sér tvítalningu á yfirráðum yfir aflahlutdeildum og þar með að yfirráð markaðsaðila í heild sinni verði umfram 100%.

„Slíkt gengur einfaldlega ekki upp,“ segir í umsögn SA við stjórnarfrumvarp atvinnuráðherra um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (gagnsæi og tengdir aðilar).

SA gera sérstaka athugasemd við þá stjórnsýslu sem birtist í tillögum um útreikniaðferð á aflahlutdeild þegar útgerðaraðili eða eignarhaldsfélag á 20% hlut eða meira í öðrum útgerðaraðila.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem kveður á um að eignarhald eins útgerðaraðila á 20% eða meira í öðrum útgerðaraðila skuli telja til viðbótar með hlutdeild þess fyrrnefnda sem jafngildir eignarhaldinu í þeim síðarnefnda.

SA draga fram einfalt sýnidæmi um hver áhrif þessarar tillögu yrðu. Í dæminu einfaldaður markaður um aflahlutdeildir þar sem starfa 10 fyrirtæki sem hvert um sig hefði yfir að ráða 10% aflahlutdeild.

„Ef eitthvert þessara fyrirtækja á meira en 20% hlut í öðru þeirra hækkar aflahlutdeild þess sem nemur margfeldi af eignarhlutdeild og aflahlutdeild í síðarnefnda fyrirtækinu, án þess þó að sá hlutur sé dregin frá yfirráðum hins síðarnefnda fyrirtækis. Afleiðingin er sú að samanlögð ráðstöfun aflahlutdeild fyrirtækja á markaðnum verður hærri en heildaraflahlutdeildin, þ.e. 100%.“

Mynd úr umsögn SA. Samtökin segja myndina sýna tölulega útlistun á þeim hönnunargalla sem felst í útreikniaðferðinni.

„Augljós“ tvítalning

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segja í umsögn sinni „augljóst“ að verið sé að tvítelja hlutdeildir. Þau draga eftirfarandi skýringarmynd til að sýna áhrif breytinganna. Á myndinni er gerð grein fyrir tveimur fyrirtækjum sem eiga hlutdeild.

„Fyrirtæki A fer með 10% hlutdeild og fyrirtæki B fer með 5% hlutdeild. Fyrirtæki A á síðan 20% eignarhlut í fyrirtæki B. Samkvæmt þeim reglum sem gilda í dag þá hefur eignarhlutur A í B engin áhrif á hlutdeild A. Samtala hlutdeildar beggja fyrirtækja er því alls 15% og hér er gengið út frá því að engin yfirráðatengsl séu til staðar.

Sú breyting sem hér er kynnt samkvæmt frumvarpinu felur í sér að við hlutdeild fyrirtækis A þarf að bæta því sem nemur eignarhlut A í fyrirtæki B aflahlutdeild B. Það þýðir að 20% af hlutdeild B bætist við hlutdeild A. Hlutdeild B helst óbreytt, það er 5%. Hlutdeild A hækkar úr 10% í 11%. Samtala hlutdeildar beggja fyrirtækja er því alls 16% og hér er gengið út frá því engin yfirráðatengsl séu til staðar.“

SFS segja augljóst að verið sé að tvítelja hlutdeildir. Samtala hlutdeilda fyrirtækjanna hækki úr 15% í 16% í þessu skýringardæmi. Í umsögninni er einnig að finna fleiri sambærileg dæmi.

Fari gegn grundvallarreglum í eigna- og félagarétti

SFS mótmæla því tillögunni og segja hana fara gegn þeim grundvallarreglum sem gilda bæði í eigna- og félagarétti.

„Í þeim athugasemdum sem fylgja er vísað til þess að eignarhald umfram 20% geti haft í för með sér veruleg áhrif. Lög og reglur byggja á því að ekki megi leggja að jöfnu veruleg áhrif og yfirráð og mun þessi breyting hafa í för með sér að draga úr fjölbreyttu eignarhaldi í íslenskum sjávarútvegi.

Í framangreindu ljósi er rétt að benda á að til að mynda reglur félagaréttarins um minnihlutavernd fela í sér að minnihluti getur haft áhrif og veitt valdi meirihlutans ákveðið mótvægi, en hin raunverulegu yfirráð ráðast ávallt af því að hafa defacto stjórn á meirihluta atkvæðisréttar. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.“

Réttarsviðin gjörólík

Í greinargerð frumvarpsins segir að 20% hlutfallið taki mið af skilgreiningu á hlutdeildarfélögum í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga.

SFS segja að réttarsviðin séu gjörólík þar sem 20% hlutfallið, sem byggt er á, liggur til grundvallar á skilgreiningu hlutdeildarfélaga samkvæmt lögum um ársreikninga við mat á virði félaga við gerð ársreikninga.

„Það er ljóst að eignaraðild ein og sér í öðrum útgerðaraðilum getur vart legið til grundvallar við útreikning á hámarkshlutdeild aðila þar sem um algera eðlisbreytingu er að ræða á þeim reglum sem gilt hafa.

Breyting af þessum toga mun án nokkurs vafa hafa áhrif á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja, hamla mjög fjárfestingu, nýsköpun, vexti og hagræðingu í greininni. Það blasir við að eignatengsl í sjávarútvegi, umfram 20% og óháð yfirráðum, mun hafa slík áhrif.“