Bankasýsla ríkisins hefur birt minnisblað, sem LEX lögmannstofa vann fyrir hönd stofnunarinnar, varðandi mögulega þátttöku ríkisins í endurkaupum Íslandsbanka á eigin bréfum. Mat LEX er að best væri, með hagsmuni ríkissjóðs í huga, að ráðherra myndi heimila sölu á eignarhlutum til Íslandsbanka með beinum endurkaupum í samræmi við núgildandi samþykktir ÍSB.

„Ef slíkt yrði ekki gert er ljóst að ríkissjóður yrði af fjárhæðum og væri að gefa eftir lögbundin réttindi sín í Íslandsbanka,“ segir í minnisblaðinu.

Fjármálaráðuneytið tók undir að slíkri ráðstöfun myndu fylgja „augljósir kostir“ en telur engu að hún sé þó ekki til þess fallin að styrkja tiltrú almennings á meðferð og ráðstöfun eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Endur­kaup án þátt­töku ríkisins gangi þvert á yfir­lýst mark­mið

Í minnisblaðinu er vakin athygli á því að í samþykktum Íslandsbanka er heimild fyrir bankann til að kaupa allt að 10% af hlutafé hans. Þá heimild megi samkvæmt samþykktum nýta til að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum.

Bent er á að framangreint feli ekki í sér söluferli á vegum ríkisins, heldur tilboð bankans til hluthafa sinna. Frumvarpsdrög ráðherra gefi hins vegar ekki kost á þátttöku Bankasýslunnar í slíkum endurkaupum.

Fari slík endurkaup fram án þátttöku ríkisins þá hækkar eignarhlutur ríkisins í bankanum sem hlutfall af öllum útistandandi hlutum „þvert á yfirlýst markmið um að minnka hlutdeild ríkisins í fjármálafyrirtækjum“.

„Ferlið við öfugt útboð er fljótlegt, ódýrt og tiltölulega einfalt í framkvæmd,“ segir í minnisblaðinu. Öfugt tilboð er hugtak sem notað er yfir endurkaupatilboð félaga á eigin hlutabréfum.

„Að mati LEX væri öfugt útboð af hálfu Íslandsbanka skynsamleg viðbót við þau almennu markaðssettu útboð sem fyrirhuguð eru í frumvarpi ráðherra, enda sé eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka það stór að erfitt mun reynast að selja hann allan í almennum útboðum.“

Í minnisblaðinu segir að öfugt útboð af hálfu Íslandsbanka uppfylli þarfir ríkisins fyrir „aðkallandi sölu ríkisins“. Öfugt útboð gæti skilað ríkinu umtalsverðum fjárhæðum í ríkissjóð á innan við mánuði. Á meðan væri hægt að undirbúa almennt útboð.

Augljósir kostir en ekki til þess fallin að styrkja tiltrú almennings

Í niðurstöðuskjali fjármálaráðuneytisins vegna samráðsferlis um frumvarpsdrög ráðherra, er fjallað um minnisblað Bankasýslunnar (sem hafði ekki verið gert opinbert).

„Því er til að svara að augljósir kostir væru fólgnir í því að gera ráð fyrir þátttöku ríkisins í endurkaupum Íslandsbanka í frumvarpinu,“ segir fjármálaráðuneytið.

Ráðuneytið tekur undir að ráðstöfun eignarhluta á grundvelli þannig heimildar yrði einföld, fljótleg og mjög líklega hagkvæm. Það segir að unnt væri að horfa til þess að slík heimild ráðherra yrði bundin við tiltekið hlutfall af heildarhlutafé í bankanum. Jafnframt að heimildin yrði bundin skilyrði varðandi verð og varðandi jafnræði hluthafa.

„Ráðuneytið telur engu að síður að slík heimild væri á þessum tímapunkti síður til þess fallin að styrkja tiltrú almennings á meðferð og ráðstöfun eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.“