Útgerðarfélagið Brim gagnrýnir harðlega drög matvælaráðuneytisins að tillögu til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu og frumvarpi til laga um sjávarútveg, í umsögn sem forstjórinn Guðmundur Kristjánsson skrifar undir. Brim telur að málið ætti ekki að fá frekari framgang heldur verði unnið betur áður en lengra er haldið.

„Skjölin, eins og þau standa í dag, eru ekki nothæf og myndu leiða til mikillar réttaróvissu og valda afturför á sviði íslenskrar fiskveiðistjórnunar,“ segir í umsögn Brims sem skilað var inn í samráðsgátt á miðvikudaginn síðasta.

Útgerðarfélagið Brim gagnrýnir harðlega drög matvælaráðuneytisins að tillögu til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu og frumvarpi til laga um sjávarútveg, í umsögn sem forstjórinn Guðmundur Kristjánsson skrifar undir. Brim telur að málið ætti ekki að fá frekari framgang heldur verði unnið betur áður en lengra er haldið.

„Skjölin, eins og þau standa í dag, eru ekki nothæf og myndu leiða til mikillar réttaróvissu og valda afturför á sviði íslenskrar fiskveiðistjórnunar,“ segir í umsögn Brims sem skilað var inn í samráðsgátt á miðvikudaginn síðasta.

Umrætt frumvarp til laga um sjávarútveg tekur mið af þremur stoðum sjálfbærrar þróunar og lagt er til að sett verði ein heildarlög um sjávarútveg, þar sem sameinaðir eru núgildandi lagabálkar á sviði fiskveiðistjórnunar. Þá eru birt drög að tillögu til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu sem á að endurspegla framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs til 2040 og er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvaðarnatöku um sjávarútveg,

Í umsögn Brims er lýst því að hin 150 blaðsíðna drög taki til ótal efnisatriða, allt frá heildarstefnu niður í smæstu orðlagsbreytingar í tíu gildandi lagabálkum, fjölmörgum reglugerðum og margskonar alþjóðlegum samningum sem snerta málefnið með beinum og óbeinum hætti.

„Við lestur skjalanna er augljóst að skjölin hafa ekki verið samin af fagfólki eða aðilum með mikla reynslu og yfirsýn á sviði fiskveiðistjórnunar,“ segir Brim og bætir við að best hefði verið ef ráðuneytið hefði unnið þessa vinnu í samvinnu og samráði við helstu hagaðila.

„Ferli sem átti að byrja sem lagaeinföldun með því að fella saman nokkra gildandi lagabálka í einn lagabálk, hefur getið af sér frumvarpsdrög sem byggja á útbreiddum misskilningi og misnotkun hugtaka alþjóðasamninga, ranga og misvísandi hugtakaskilgreiningar eru settar fram, auk fjölmargra annarra atriða sem endar í ruglingslegri blöndu sem getur ekki gengið upp sem skýr og skilvirkur endurskoðaður lagarami til að stýra einni af grundvallaratvinnugreinum þjóðarinnar.“

Þræða upp alla helstu ósiði ESB og Alþjóðahafrannsóknaráðsins

Brim telur að nokkur jákvæð sjónarmið komi fram í drögunum eins og að nefnt sé að á Íslandi hafi verið byggt upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem stuðli að ábyrgum fiskveiðum á sjálfbærum grunni.

„Þessi atriði falla þó í skuggann af öðrum efnisatriðum sem fela í sér afturför íslensks sjávarútvegs. Þar sem frumvarpið er því miður illa unnið, þá felur það í sér mun fleiri „nýmæli“, en þau nýmæli sem ráðuneytið dregur fram í sínum drögum. Það er bagalegt og eitt og sér næg ástæða til að draga eigi þetta skjal til baka og vinn það betur, áður en lengra er haldið.

Engu er líkara en að frumvarpshöfundar þræði upp alla helstu ósiði Evrópusambandsins og Alþjóðahafrannsóknaráðsins við fiskveiðistjórnun svo sem illa hafa reynst, í stað þess að byggja með beinum hætti á samþykktum alþjóðasamfélagsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að og hefur staðfest og átti stóran þátt í að móta.“

Brim segir að með þessu sé grafið undan þeim lærdómi sem dýrkeypt reynsla alþjóðasamfélagsins hefur skapað og formfest ásamt helstu kostum þeirrar fiskveiðistjórnunar sem Íslendingar hafa valið sér og mótað. Frumvarp ráðherra grafi jafnframt undan mikilvægum gildum sem búa að baki alþjóðasamningum.

„Efnistök og skýringar í frumvarpinu bera með sér að leitað er rökstuðnings í regluverki sem byggir á stífri verndun náttúru og ítrustu varúðarnálgun, sem grefur undan ábyrgri nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar og veikir um leið stöðu sjávarútvegsins sem grundvallaratvinnugreinar sem er ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs.“

Ýti undir geðþóttastýringu og vonda stjórnsýslu

Brim telur að drögin feli einnig í sér að ráðherra og Fiskistofu séu falin enn meiri völd til að taka matskenndar ákvarðanir sem ýta undir „geðþóttastýringu og vonda stjórnsýslu“.

„Markmiðið ætti að vera að setja almennar skiljanlegar reglur í lögum og undirbyggja þannig faglegt og málefnalegt starf ráðuneytisins og undirstofnana þess og styrkja þannig atvinnugreinina.“