Isavia hefur auglýst yfir 300 sumarstörf sem verða í boði í ár á Keflavíkurflugvelli, að því er kemur fram í tilkynningu. Upplýsingar um störfin má finna hér. Umsóknarfrestur er til 12. apríl næstkomandi.
Meðal starfa sem eru auglýst eru í öryggisleit, eftirliti, á gátstöðvum, í farþegaþjónustu, farþegaakstur, umsjón eigna og búnaðar eða í störf hjá APOC stjórnstöð á vellinum.
„Spáð er miklum umsvifum á Keflavíkurflugvelli í sumar en farþegaspá vallarins gerir ráð fyrir tæplega 5,8 milljónum farþega yfir sumarmánuðina apríl til og með október sem er 7,2% aukning frá fyrra sumri,“ segir Isavia.
Bent er á að á síðari hluta ársins verði austurálma, ný viðbygging við flugstöðina, tekin að fullu í notkun en framkvæmdir hófust þar árið 2021. Hún kemur til að stækka flugstöðina um 30%. Með austurálmunni bætast við nýir landgangar og rúmbetra setusvæði fyrir verslanir og veitingastaði, auk þess sem nýr töskusalur var opnaður þar á síðasta ári.