Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur auglýst eftir einum eða fleiri söluaðilum vegna fyrirhugaðs útboðs á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., en stefnt er að því að selja hluti ríkisins í bankanum í markaðssettu útboði á grundvelli laga sem samþykkt voru á Alþingi í júní í fyrra.
Markmið sölunnar er samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að uppfylla meginmarkmið um gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni við ráðstöfun ríkiseigna. Samkvæmt lögunum skal safnað tilboðum í að minnsta kosti tvær tilboðsbækur, með forgangi einstaklinga við úthlutun. Breytingarfrumvarp sem nú er til meðferðar á Alþingi kveður jafnframt á um að þriðju tilboðsbókinni verði bætt við, m.a. til að tryggja þátttöku fagfjárfesta og annarra fjárfestahópa.
Barclays, Citi og Kvika banki hafa nú þegar verið ráðin sem umsjónaraðilar með væntanlegu útboði, og hefur fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans verið ráðin sem sjálfstæður fjármálaráðgjafi ríkisins.