Ríkisútvarpið gerir ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi auglýsingasölu á þessu ári. Annað árið í röð er því ekki tekið tillit til ákvæðis í þjónustusamningi RÚV við ríkið fyrir tímabilið 2024-2027, sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra, skrifuðu undir í lok árs 2023. Samningurinn kveður sérstaklega á um að minnka eigi umsvif ríkismiðilsins á auglýsingarmarkaði.
Stjórn RÚV fjallaði meðal annars um fjárhagsáætlun ársins 2025 á fundi í lok nóvember sl. Í fundargerð kemur fram að áætlað sé að auglýsingatekjur verði um 2,7 milljarðar árið 2025. Auglýsingatekjur hafi að raunvirði staðið í stað frá árinu 2023 og séu 6-8% lægri en þær hafi verið á árunum 2012-2019.
Ársreikningur RÚV fyrir síðasta ár hefur ekki enn verið birtur en miðað við fyrrgreinda skýringu um að auglýsingatekjur hafi að raunvirði staðið í stað frá 2023 má ætla að auglýsingatekjur RÚV hafi verið um 2,6 milljarðar króna á síðasta ári, þar sem auglýsingatekjur námu tæplega 2,5 milljörðum árið 2023. Árið 2022 námu tekjur ríkismiðilsins af auglýsingasölu 2,4 milljörðum króna og árið 2021 rétt ríflega tveimur milljörðum.
Þessu til viðbótar hækkar útvarpsgjaldið um 2,4% á þessu ári, úr 20.900 krónum í 21.400 krónur. Frá árinu 2022 hefur útvarpsgjaldið hækkað um tæplega 14%. Í ársreikningi RÚV fyrir árið 2023 kemur fram að tekjur af almannaþjónustu, sem er ríkisframlagið, hafi numið 5,7 milljörðum króna. Samkvæmt fjárlögum síðasta árs voru 6,2 milljarðar eyrnamerktir RÚV og samkvæmt fjárlögum 2025 er ríkisframlagið 6,5 milljarðar.
Samkvæmt þessu eru tekjur RÚV af auglýsingasölu og útvarpsgjaldi að hækka um ríflega 400 milljónir króna á milli áranna 2024 og 2025 og verði 9,2 milljarðar á þessu ári.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.